149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það sem er afar mikilvægt í svona stefnumótunarvinnu er samráðið. Í umsögn Geðhjálpar kemur fram að ekki hafi verið óskað sérstaklega eftir aðkomu frá þeim við mótun stefnunnar. Mér þykir það ámælisvert og það eru fleiri dæmi þessa. Í umsögn Geðhjálpar segir t.d.:

„Raunar er eftirtektarvert að hvergi skuli vera minnst á knýjandi þörf fyrir umbætur í geðheilbrigðisþjónustu.“

Þetta hefur nú verið rætt hér oftar en einu sinni og er ákaflega mikilvægur málaflokkur. Ég held að við verðum að taka ábendingum af þessu tagi alvarlega. Hér er jú verið að móta stefnu til framtíðar og þarna er gríðarlega mikilvægur málaflokkur undanskilinn sem ég tel ámælisvert. Hv. þingmaður nefnir sérstaklega að stefnan hafi heildaryfirsýn en ekki sé farið út í smáatriði. Ég verð að segja, hv. þingmaður, að mér finnst geðheilbrigðismálin ekki vera einhver smáatriði. Þetta finnst mér vera ámælisvert og ekki gott að leggja fram stefnu sem hefur það ekki fram að færa.

Í lokin vildi ég aðeins fá að nýta tækifærið og spyrja hv. þingmann út í gagnrýni frá landlækni. Þar segir:

„Ekki er nóg að efla sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni með fjarheilbrigðisþjónustu og sjúkraflutningum. Það ætti að jafna með staðbundinni þjónustu sérfræðinga …“

Ég er hjartanlega sammála þessu vegna þess að við erum að horfa svo langt fram í tímann. Gott væri að fá álit hv. þingmanns á þessu, hvernig hann sæi það fyrir sér að við myndum reyna að auka viðveru sérfræðinga á landsbyggðinni.