149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:31]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 síðara sinni. Þetta er mikilvægur áfangi sem eðlilegt er að fagna.

Við höfum hlýtt á nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar þar sem ég hef ritað nafn mitt á og sömuleiðis hlýtt á nefndarálit minni hluta velferðarnefndar, hvort tveggja dýrmætt innlegg í umræðuna um mikilvægt málefni sem við eigum eftir að fjalla um seint og snemma á næstu misserum.

Lengi hefur þess verið beðið að þjóðin setti sér skýra stefnu í þessum mikilvæga málaflokki og væntingar því talsverðar þegar hæstv. ráðherra lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að ákveða að nú yrði kúrsinn settur, það væri brýnast af öllu, ekki væri ráðlegt að halda áfram stefnulaust og ómarkvisst veginn endalausa og út í óvissuna.

Á alvarleika stefnuleysis var bent, sem oft og iðulega hefur verið gert og síðast í skýrslu McKinseys fyrir nokkrum misserum í tengslum við verkefni á Landspítala og heilbrigðisþjónustu sem tengist beinlínis honum. Sömuleiðis hefur ríkisendurskoðandi fjallað um heilbrigðisþjónustuna og einmitt undirstrikað að samningar, t.d. við rekstraraðila heilbrigðisþjónustu, m.a. einkareknar stofur, hafi í mörgum tilvikum verið byggðir á veikum forsendum. Eftirfylgni og árangursmat hafi verið í skötulíki.

Það er samdóma álit og hæstv. ráðherra hefur gert sér fulla grein fyrir því að skilgreina þurfi helstu stoðir og áherslur áður en lengra er haldið og fellst á þau sjónarmið sem komu fram í skýrslu McKinseys að óráðlegt væri að fara að bæta við og stórauka umfangið í heilbrigðisþjónustunni án þess að við hefðum fulla yfirsýn yfir það hvert við ætluðum okkur að stefna í kerfinu, hverjir ættu að vera helstu gerendur í heilbrigðisþjónustunni, hvar við ætluðum að bjóða þjónustu og hverjir væru vel til þess fallnir, hvernig við vildum byggja upp þjónustuna og hverjar forsendurnar ættu að vera. Þegar þetta væri orðið gegnsætt og við skilgreint þetta vel og kostnaðarmetið hina einstöku þætti — sem ég tel afar brýnt og er eitt af höfuðmeinum okkar hvað við vitum lítið um hvað einstakir þættir þjónustunnar kosta, þessi dýrmæti þáttur í samfélaginu sem heilbrigðisþjónustan er því að við höfum afar litlar upplýsingar um hvað hlutirnir kosta. Það kann að hljóma ótrúlega í þessu tæknivædda samfélagi þar sem við getum sett verðmiða á nánast allt stórt og smátt. Vegvísir eða uppdráttur af því hvernig kerfið lítur út er mergurinn málsins.

Áður hefur margoft komið fram að þjóðin, almenningur, kallar eftir bættri þjónustu, almennri þjónustu á forsendum þjóðarinnar, að við starfrækjum sameiginlega þennan grunnþátt í samfélaginu fyrst og fremst. Þegar við höfum gert upp hug okkar hvernig þessu verður best fyrir komið, hvað hlutirnir kosta og aukið gegnsæi, þá getum við fjallað um hverjir séu best fallnir til að veita þjónustuna. Í þessum málaflokki hefur verið beðið eftir stefnumörkun með nokkurri eftirvæntingu.

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið hefur þessi þingsályktunartillaga um heilbrigðisstefnu fengið vandaða umfjöllun í velferðarnefnd. Tæplega 40 umsagnir bárust um tillöguna, fjöldi gesta kom á fund nefndarinnar og samráð var haft við framkvæmdarvaldið, hæstv. ráðherra, um ýmis atriði sem skýrð hafa verið.

Við yfirferð tillögunnar verð ég að viðurkenna að upplifunin var svo sem ekki stórkostleg og auðvelt hefur verið að halda aðdáun á þessu plaggi í skefjum. En öll umræða er af hinu góða og ekkert sem sett er niður í tillöguna er af því tagi að ástæða sé til að agnúast út í eða gera um það verulegan ágreining. Í tillögunni er að finna viljayfirlýsingu í ýmsum atriðum, jafnvel atriðum sem skilja má sem hvatningu, jafnvel spá um hvernig við horfum til framtíðar. Það er auðvitað mikilvægt. Það er mikilvægt líka að við sköpum sátt til lengri tíma um uppbygginguna, uppbyggingu kerfisins og útlínur. En ég hef þó ekki fulla sannfæringu fyrir því að sú stefna sem hér liggur frammi rammi nægilega sterklega inn þá sýn sem við þurfum að hafa í málaflokknum, ég tala ekki um framkvæmdina sem öllu skiptir.

Virðulegur forseti. Í þingsályktunartillögunni segir að framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustuna skuli verða eftirfarandi:

1. Íslensk heilbrigðisþjónusta verði á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar.

2. Árangur innan heilbrigðisþjónustunnar verði metinn með því að mæla gæði hennar, öryggi, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar.

Þetta er mikilvægt. En ég verð þó að gera þá játningu að það fer jafnan um mig vottur af hrolli þegar þessi litla þjóð ætlar að fara að setja einhver heimsmet eða gera eitthvað á heimsmælikvarða. Ég held að það sé brýnt að við förum með löndum í því sambandi. Bitur reynsla á fyrri hluta þessarar aldar og óraunhæfir draumar ættu að vera okkur nægur skóli í því efni. En við eigum að hafa heilbrigðan metnað til að gera vel, að öryggisnet eigi að vera þéttriðið, að heilbrigðisþjónusta, forvarnir, heilsuefling og endurhæfing séu fyrirferðarmikil og að enginn þurfi að hverfa frá vegna þess að fólk hafi ekki næg efni.

Virðulegur forseti. Tillagan byggir á sjö sundurliðuðum grunnstoðum heilbrigðisþjónustunnar sem fjallað er um með nokkuð almennum orðum í tillögunni. Kannski er það klókt og eðlilegt, en væntingar ýmissa hafa ef til vill verið meiri, að ríkari afstaða verði tekin til ýmissa þátta sem hafa verið á reiki og að við markeruðum kannski einhver spor inn í framtíðina sem við þurfum að fara að horfast í augu við.

Það sem helst má finna að, að mínu áliti, eru þau atriði sem lítið eða ekki er drepið á í þessari stefnu. Fyrst koma auðvitað í hugann, af því að málið er mér hugleikið, þau atriði sem lúta að öldruðum og hvernig horft er til þjónustu við þá hópa sem höllum fæti standa til lengri og skemmri tíma í samfélaginu. Ekki er að sjá verulega stefnubreytingu eða nýsköpun hvað varðar hjúkrun og umönnun aldraðra eða stöðu aldraðra almennt í samfélaginu og þeirrar kröfu að aldraðir búi við sömu lífsgæði og aðrir aldurshópar. Hér hefur verið bent á að ekki sé hægt að fjalla um allt stórt og smátt í víðtækri stefnu sem á að vera hjálmur utan um margflókin verkefni, en rétt er að benda á að lýðfræðileg sýn okkar varðandi framtíðina er að myndin gjörbreytist hvað varðar þennan aldurshóp sem mun margfaldast á næstu áratugum. Við verðum að fara að líta til breytinga hvað það varðar.

Ekki er ýkja mikið fjallað um annað atriði, þ.e. endurhæfingarþjónustu, þann mikilvæga þátt sem tengist í mörgum tilvikum þjónustu við aldraða, sem miðar að aukinni og órofinni þátttöku í samfélaginu án þess að þurfa stofnanavistun til lengri tíma, stofnanavistun sem ljóst er að samfélagið verður að takast á við með nýjum hætti. Sú stofnanaárátta sem hér hefur verið við lýði síðustu áratugi er nú senn að niðurlotum komin og við verðum að leggja höfuðáherslu á að breyta þeirri hugsun sem lýtur að búsetuvalkostum fyrir aldrað fólk.

Nefnd hefur verið geðheilbrigðisþjónusta, að lítið sé fjallað um hana í þingsályktunartillögunni. En rétt er að benda á, eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefndi, að í gildi er geðheilbrigðisstefna eða geðheilbrigðisáætlun í landinu og henni er framfylgt og ráðherra hefur verið að styrkja þjónustuna á því sviði eftir föngum að undanförnu.

Vel kann að vera að ekki þyki við hæfi að ofangreind atriði séu sett niður í almenna heilbrigðisstefnu. Því er mikilvægt að aðgerðaáætlun liggi fyrir og það hið fyrsta. Ég þykist vita að ráðherra eða ráðuneytið er þegar farið að leggja grunn að ýmsum þáttum hennar og það er brýnt, en gert er ráð fyrir að slík áætlun liggi fyrir á fimm ára fresti.

Virðulegur forseti. Fjalla mætti um þetta efni ítarlegar. Eins og hv. þm. Bergþór Ólason hefur nefnt er lítið fjallað um heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni eða hlut landsbyggðarinnar í heilbrigðisþjónustunni, heilsugæsluna á landsbyggðinni. Nú fer að styttast í að fólkið á landsbyggðinni missi þolinmæðina. Það er lítið að gerast varðandi umbætur í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Það þarf að fara í þarfagreiningu og fleiri mikilvæg atriði. Tæpt er á því í tillögunni að fjarlækningar geti verið mikilvægur hlekkur eða mikilvægur liður í því að viðhalda og styrkja þjónustuna í dreifðum byggðum landsins. En við hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson erum sammála um að fjarlækningar eða fjarheilbrigðisþjónusta er gríðarlega mikilvæg stoð, viðbótarstoð fyrir íbúana á landsbyggðinni og ekki síst fyrir fagfólk sem þar starfar, því að ýmsir möguleikar opnast í tengslum við það.

Virðulegur forseti. Það er auðvitað ekki annað hægt en að fagna framkominni tillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Samfélagið þarf á því að halda af efnislegum ástæðum og auðvitað fjárhagslegum, að skapa traustan ramma utan um heilbrigðisþjónustuna í landinu öllu til lengri tíma. En þar á kylfa ekki að ráða kasti. Þar eiga ekki einstakar stofnanir eða fyrirtæki að olnboga sig áfram eða aðstæður á hverjum stað að ráða niðurstöðu.

Ég styð vitaskuld þessa tillögu sem nefndarmaður í velferðarnefnd, en var því miður fjarverandi þegar nefndarálitið kom til lokaafgreiðslu. Ég fagna því að við fjöllum um þetta mikilvæga mál í dag, þakka velferðarnefndarmönnum og samferðamönnum mínum þar fyrir ágætt samstarf við vinnsluna og vona að okkur farnist vel með þá aðgerðaáætlun sem í kjölfarið fylgir.