149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann um sjúkraflutninga vegna þess að ég veit að hann er sérstakur áhugamaður um sjúkraflutninga, sem er gott og vel. Það segir hér í umsögn embættis landlæknis við heilbrigðisstefnu að kveða mætti fastar að orði um uppbyggingu sjúkraflutninga. Það verður að segjast eins og er að það er afskaplega rýrt framlag í þessari stefnu um sjúkraflutninga. Sjúkraflutningar eru jú heilbrigðisþjónusta og heilbrigðisyfirvöld eiga að stýra því hvernig þeim er háttað, hvort sem það er á landi, á legi eða í lofti.

Það má geta þess að fagráð sjúkraflutninga gaf út árið 2017 mjög vandaða skýrslu þar sem lagt er til að þyrlur verði notaðar til að sinna sjúkraflutningum hér á landi og verði fastur hluti af sjúkraflutningaviðbragði til viðbótar við sjúkrabíla og sjúkraflugvélar. Eins og við þekkjum þá skerðir löng fjarvera sjúkrabíls eða læknis úr heimabyggð þar sem aðeins einn sjúkrabíll er til staðar möguleikana á að bregðast við frekari uppákomum á meðan. Svo skiptir tíminn að sjálfsögðu öllu máli í þessu starfi, þ.e. viðbragðstíminn.

Nú er hv. þingmaður í velferðarnefnd og er á þessu nefndaráliti. Mig langar að spyrja hann að því hvort hann sakni þess ekki að það skuli ekki vera fjallað meira um sjúkraflutninga, (Forseti hringir.) sérstaklega með þyrlum sem hv. þingmaður hefur talað fyrir, m.a. hvað Suðurlandið varðar og Vesturland.