149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:23]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég hef fulla trú á að hæstv. heilbrigðisráðherra og þeir heilbrigðisráðherrar sem munu koma í framtíðinni muni ekki hika við að taka ákvarðanir um að semja við þriðja aðila, félagasamtök og aðra einkaaðila við rekstur, nái þessi stefna fram að ganga.

Hvað er hluti af þessari stefnu og hvað er það sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur nefnt? Við þurfum að vita hvaða þjónustu við veitum og hvaða gæði við fáum. Hvernig er þetta? Það er skortur á því í dag, bæði innan Landspítalans og annars staðar, að fá að vita hvaða þjónustu við kaupum raunverulega og hvaða eftirfylgni er. Fáum við þá þjónustu? Eru gæðakröfur uppfylltar?

Þegar við höfum hér stefnu sem segir að við skulum veita þjónustuna þar sem gæðin eru mest, á sem öruggastan hátt, á sem hagkvæmastan hátt, ef það liggur fyrir hljótum við að kaupa hana þar, óháð rekstrarformi. Það er það sem þessi stefna gengur út á. Stefnan á ekki að stýra neinu úr einu rekstrarformi yfir í annað, alls ekki. Þessi stefna segir: Heyrðu, við skulum stefna að því að hafa upplýsingar um hagkvæmni þjónustunnar, gæði þjónustunnar og öryggi hennar. Það mun stýra því hvar við kaupum þá þjónustu hjá hinu opinbera.