149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:53]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, formanni utanríkismálanefndar, fyrir vasklega framsögu og skýra. Það er ýmislegt sem mig langaði til að bera undir hv. þingmann og þá sérstaklega þar sem ég sat nú þessa fundi og með þessum lögspekingum.

Það er t.d. verið að tala um lagalega fyrirvara. Davíð Þór Björgvinsson kom til okkar og eins og hv. þingmaður nefndi áðan sagði hann að hann teldi ekki um neitt framsal að ræða og hann teldi að við værum ekki að ganga á svig við stjórnarskrá eða eitt eða neitt. Hann sagði þó engu að síður, þegar kom að þessum lagalega fyrirvara, að hann væri nú meira til heimabrúks — óbreytt orð hans — í raun ekkert mark á takandi.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað átti Davíð Þór Björgvinsson við? Og gátum við ekki trúað því? Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst komu líka til okkar og skiluðu álitsgerð sinni. Þar virðist vera meira um lagalega óvissu og þeir komu með tvær tillögur til að nálgast viðfangsefnið. Fyrri tillagan var sú sem þeir töldu þá lögfræðilega réttu, og sögðu það líka á fundi utanríkismálanefndar, en hún fól í sér að við myndum bera þetta upp fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Sú tillaga var hins vegar ekki valin heldur hugmyndin að þessum svokallaða stjórnskipulega fyrirvara sem Davíð Þór Björgvinsson gerði nú ekki rosalega mikið úr.

Þetta er eitthvað sem ég er að velta fyrir mér svona í byrjun, þetta tvennt.