150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Í boltanum í gamla daga veitti þjálfarinn ýmis góð ráð. Eitt sem gjarnan var kallað inn á völlinn þegar honum þótti þurfa að þétta glufurnar í vörninni var að menn þyrftu að tala saman þar. Þetta kom svolítið upp í hugann eftir að ég hafði varið morgninum á fundi velferðarnefndar þar sem farið var yfir hlutabótamálið af hálfu ráðuneytisins. Ég kem síðan hingað í þingsal og hlusta á fjármálaráðherra fara yfir hitt tengda málið og eins og hæstv. félagsmálaráðherra hefur einnig farið yfir tengjast málin verulega.

Einhvern veginn upplifði ég það við að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra fara yfir sitt mál hér í dag — sett til höfuðs er nú kannski fullmikið sagt, en þarna er verið að höfða svolítið til sömu fyrirtækja, sama fólks að einhverju leyti og þetta er óneitanlega töluvert ruglingslegt. Það er klárt að kostnaðarmat í hvoru máli fyrir sig mun fyrst og fremst taka mið af því hve margir nýta sér hitt úrræðið sem er í boði. Við erum síðan að tala um tvö mál sem eru ansi flókin og þarf að vinna hratt og vel en fara eftir því sem mér skilst hvort inn í sína nefnd. Ég held að ég fari rétt með það að fyrra málinu var vísað í efnahags- og skiptanefnd og þetta mál fer inn í velferðarnefnd þannig að ég ætla að vona að þessar tvær nefndir nái einhvern veginn að vinna þetta saman.

Við erum ekki að tala um málið í fyrsta skipti og fyrst og fremst er um að ræða ákveðna framlengingu og síðan herðingu á skilyrðum, bæði og, vegna þess að 25% tekjufall á tímabili A, B, C eða D gerir raunverulega að verkum, því miður, miðað við þær aðstæður sem við lifum núna, að ansi mörg fyrirtæki geta nýtt sér þetta. Það er bara þannig. Ég ætla ekki segja að þau geti það öll en ansi mörg geta fundið sér tímabil af þessum valmöguleikum þar sem þau hafa orðið fyrir 25% tekjufalli. Það hefur komið í ljós að þetta úrræði er betra fyrir launafólk en almenna kerfið. Greiðslur eru tímabundnar og hærri. Það er betra fyrir launafólk og við erum alltaf að tala um hag þess. Það er verið að gera það, rétt og gott að halda því til haga, og það er því ágætt að sem flestir komist inn í þetta úrræði af þeim sem eru í boði fyrir launafólk.

Þá komum við að hinu. Þegar fyrirtæki hafa uppfyllt þetta skilyrði, sem er tiltölulega, því miður, á þeim tímum sem við lifum núna, auðvelt að uppfylla, þá koma mjög hörð skilyrði eftirfylgninnar. Það er þetta með, eins og hefur verið rakið hér, bæði í ágætri framsöguræðu ráðherra og í þeim andsvörum sem verið hafa, skilyrði um að sett verði þak á laun forstjóra og annarra forsvarsmanna fyrirtækis, ekki greiddur arður og ekki greitt fyrir fram upp í víkjandi lán, ekki keypt í eigin hlutabréfum og svona. Það er allt sannarlega rétt og gott vegna þess að við viljum síst af öllu haga málum þannig í þessu kapphlaupi að það sé búið svo um hnútana að fyrirtæki geti misnotað þessi úrræði. Við þurfum líka að huga að því að misnota er stórt orð og þau fyrirtæki sem hlupu fram úr sér í hinu fyrra úrræði gerðu það af því að lögin buðu upp á það. Fyrir það er verið að girða núna með skilyrðunum. Eins og gjarnan er þegar menn ætla að loka einhverri glufu sem óvart eða tilfallandi var skilin eftir opin þá fara menn svolítið bratt og mér þykir svolítið bratt að fara alla leið til ársins 2023, t.d. með arðgreiðslur, vegna þess að rétt eins og fyrirtæki sjá ekki fyrir sér þetta högg þegar það kemur, lenda í óvæntum og mjög snöggum vanda, þá getur gerst, án þess að menn sjái það fyrir, að við vinnum okkur hratt og vel upp úr þessu og það er ekkert óeðlilegt við það að innan þriggja ára héðan í frá greiði fyrirtæki sér arð. Þess vegna myndi ég telja vænlegra, ef við viljum að fyrirtæki nýti sér þetta, að þau geti komið sjálf og skilað án þess að vera að borga þetta 15% álag en í orðanna hljóðan felst að þau hafi ætlað sér að svindla. Ég tel að þorri íslenskra fyrirtækja ætli sér ekki að gera það, ekki heldur þau sem nýta sér þetta úrræði og ekki heldur þau sem nýta sér þetta úrræði og skila síðan hagnaði innan þriggja, fjögurra ára. Þannig að ég vildi óska og mun fara fram á það að velferðarnefnd skoði hvort hægt sé að líta til þess að þetta 15% álag verði ekki notað nema brotavilji komi sannanlega í ljós við eftirlit.

En þetta er sem sagt raunverulega þannig og menn hafa talað um að það hafi komið fram á fundum að með þessum stífu skilyrðum sé ekki ólíklegt að einhver fyrirtæki nýti sér þetta ekki vegna þess að þau sjái fram á eða vonist til þess að betur gangi innan tíðar og vilji þá nýta sér einhver önnur úrræði, m.a. það sem var kynnt fyrr í dag. En þá er launamaðurinn verr settur þannig að málið er ekki alveg einfalt og það einfaldar það heldur ekki að það skuli vera unnið hvort í sinni nefnd.

Þessar vangaveltur sit ég uppi með, ég sé enga ástæðu til að vera að þylja upp það sem þegar hefur komið fram um tiltekin úrræði og annað slíkt. Það er kannski bara það að við gætum þess hverra hagsmuna við erum að gæta í þessu máli og höfum það í huga. Mögulega væri ráðið í málinu núna að flýta sér hægt og vanda þannig til að við séum mjög sátt við það hvernig málið kemur til afgreiðslu inni í nefnd á lokasprettinum og að þær nefndir sem eru að fjalla um þessi tvö mál, þ.e. atvinnuleysisbæturnar og síðan þetta hlutabótamál, vinni það saman þannig að við einföldum málið fyrir þá sem við erum að aðstoða en flækjum það ekki. Það er að mínu mati flækjustigið sem getur gert það að verkum að einhverjir, sem ekki ættu, nota sér þær leiðir sem hér er verið að bjóða upp á, miklu frekar en einbeittur brotavilji af hálfu íslenskra fyrirtækja. Ég hef enga ástæðu til að ætla að svo sé. Og það er okkar sem hér stöndum að búa svo um hnútana að við gætum hagsmuna launþega, að við aðstoðum fyrirtækin eins og við getum og gætum hagsmuna ríkissjóðs, skattgreiðenda, allt á sama tíma. Það er alveg hægt. En þá verðum við að gera það saman og hafa heildarmyndina á hreinu.