150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er stórmerkilegt þegar þingmenn telja sig þess umkomna að kalla það sem kemur frá þingmönnum Vinstri grænna bull og misskilning og telja sig og meðþingmenn sína í Samfylkingunni einhvern veginn með hinn eina sannleika í sínu brjósti. Það er nú varla þannig að enginn hafi vitað af þessum málum nema Samfylkingin. Ég treysti því að Samfylkingin komi þá bara með sínar tillögur í þessum málum og þær verði ræddar, hvernig hægt er að koma í veg fyrir það 110% að hugsanlega fari eitthvert fyrirtæki, sem er með fé sitt í skattaskjóli og greiðir ekki skatta til ríkisins, inn í þessa hlutabótaleið.

Mér fannst ágætt að heyra það hjá hv. þingmanni að viðurlög ættu að vera við þessu. Þess vegna fannst mér mjög undarlegt þegar fram kom hjá formanni velferðarnefndar að verið væri að býsnast yfir því að skilyrði séu hert og fyrirtæki megi ekki greiða sér arð næstu þrjú árin. Mér finnst þetta stangast á. Annaðhvort eru úrræðin allt of þröng og verið að herða svo að fyrirtækjum að þau geti ekki greitt sér arð en á hinn veginn er verið að tala um að það sé svo mikill losarabragur á þessu að fyrirtæki geti verið með fé í skattaskjóli og farið inn í þessa leið. Ég held að Samfylkingin ætti að ákveða hvorum megin hún vill vera í þessu máli en ekki bara þar sem hentar hverju sinni til að gera lítið úr því sem verið er að gera af hálfu ríkisstjórnarinnar til að mæta þeirri erfiðu stöðu sem launþegar og fyrirtæki standa frammi fyrir. Það er heiðarlegt fólk sem vinnur á Alþingi, burt séð frá því í hvaða flokki það er.