150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar.

812. mál
[20:10]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar sem ætlað er að stuðla að skilvirkari framkvæmd laganna. Frá setningu laga um atvinnuleysistryggingar árið 2006 hafa orðið nokkrar breytingar á innlendum vinnumarkaði en m.a. í ljósi þess stendur til að lögin verði endurskoðuð í heild sinni í samráði við samtök aðila vinnumarkaðar. Þær breytingar sem mælt er fyrir um í þessu frumvarpi eru aftur á móti þess eðlis að ekki þykir rétt að bíða með þær þar til slíkri heildarendurskoðun lýkur. Á það ekki síst við í ljósi þeirra aðstæðna sem í dag ríkja á vinnumarkaði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þegar skráð atvinnuleysi er í sögulegu hámarki og heildarfjöldi þeirra sem þiggja þjónustu Vinnumálastofnunar vegna atvinnuleysistrygginga hefur aldrei verið meiri.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem þykja brýnar og nauðsynlegar með það að markmiði að framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar verði skilvirkari en nú er. Lagt er til að bætt verði við almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum að umsækjandi sé með skráð lögheimili á Íslandi, auk þess sem dregið verði úr vægi vottorða frá fyrrverandi vinnuveitendum þegar launamenn sækja um atvinnuleysisbætur. Einnig er lagt til að lögreglu verði bætt í hóp þeirra stjórnvalda sem skulu láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem stofnunin telur nauðsynlegar við framkvæmd laganna. Með frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á viðurlagakafla laganna í kjölfar dómaframkvæmdar en mikilvægt þykir að skýrt verði kveðið á um hvaða viðurlög eigi við þegar tryggður aðili hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í fjórar vikur eða lengur og verður uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit sé hætt.

Enn fremur er lagt til að skýrt verði kveðið á um í lögunum að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða launamanni gjaldþrota félags atvinnuleysisbætur frá þeim degi sem félagið er úrskurðað gjaldþrota en samkvæmt gildandi lögum er miðað við þann dag sem uppsagnarfrestur hefst eða næsta mánuð eftir að uppsögn hefur átt sér stað.

Virðulegi forseti. Markmið stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafa m.a. verið að afstýra efnahagslegu tjóni og stuðla að öflugri viðspyrnu efnahagslífs en á sama tíma að standa vörð um réttindi launafólks. Því miður er ljóst að alvarlegt tekjutap blasir við fjölda fyrirtækja sem mun eflaust leiða mörg þeirra til endurskipulagningar á fjárhag sínum. Ég vona sannarlega að slíkri endurskipulagningu muni fylgja sem allra fæstar uppsagnir á launafólki og að sem flestum fyrirtækjum verði forðað frá gjaldþroti. Því miður verður þó sennilega ekki unnt að komast hjá því að áhrif þessa heimsfaraldurs á vinnumarkaðinn leiði til þess að einhverjum fyrirtækjum fatist flugið og að þau verði gjaldþrota. Staða launafólks í slíkum aðstæðum er afar viðkvæm og þykir því brýnt að Vinnumálastofnun verði heimilt að greiða atvinnuleysisbætur strax frá þeim degi er félag er úrskurðað gjaldþrota.

Líkt og ítrekað hefur komið fram er staðan sem komin er upp án fordæma og nauðsynlegt að bregðast við í samræmi við það. Ég tel alveg ljóst að á komandi misserum muni áfram reyna mikið á atvinnuleysistryggingakerfið í heild sinni sem og á starfsfólk og innviði Vinnumálastofnunar. Er þetta frumvarp liður í því að bregðast við þeim aðstæðum með því að einfalda og skýra leikreglur, bæði fyrir stofnunina sem og fyrir umsækjendur um atvinnuleysistryggingar, og auka þar með skilvirkni við framkvæmd laganna.

Frumvarpið var unnið í samvinnu allra hlutaðeigandi aðila á vinnumarkaði, bæði atvinnurekenda og samtaka launafólks. Ég legg áherslu á að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi sem allra fyrst og legg til að því verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.