151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Til er ævintýri af Velvakanda og bræðrum hans, Velhaldanda, Velhöggvanda, Velsporrekjanda og þeim fimmta, Velbergklifranda. Fengu þeir allir nöfn sín að launum frá þyrstri kerlingu sem þeir gáfu að drekka. Kerlingin sagði að renta fylgdi nafni. Fór svo, eins og í öllum góðum ævintýrum, að hver fékk sína konungsdóttur að launum.

Kerlingin hefur orðið þyrst að nýju og ríkisstjórnin gefið henni að drekka og fengið að launum nafnið Velhringlandi.

Herra forseti. Fasteignamarkaðurinn er gott dæmi um stjórn Velhringlanda. Einn daginn eru kynnt til sögunnar úrræði til að hvetja fólk til fasteignakaupa, einkum ungt fólk. Það er hvatt til þess að nýta sér séreignarsparnað. Lánshlutföll eru hækkuð og hlutdeildarlán veitt. Allir fagna langþráðri vaxtalækkun en eftirspurn rýkur upp og markaðurinn ræður ekki við hana. Fasteignir hækka í verði, ungt fólk skuldsetur sig upp í rjáfur og vonar það besta. Þá gerist það að vextir hækka að nýju og þar með skulda- og vaxtabyrði. Vandræði ungs fólks aukast og enn eru boðaðar vaxtahækkanir. Og ekki nóg með það. Nú liggur fyrir frumvarp um að Seðlabankanum verði heimilt að stjórna lánshlutföllum til húsnæðiskaupa til að hemja markaðinn. Þessar sífelldu breytingar ýta undir misskiptingu. Ef maður er heppinn og kaupir á réttum tíma þá er manni borgið. Ef ekki þá er maður annaðhvort fastur á leigumarkaði eða neyðist til að kaupa á mun óhagstæðari kjörum en öðrum á sama markaði buðust eða munu bjóðast.

Herra forseti. Þetta er nú það sem Velhringlandi hefur helst að bjóða ungu fólki á fasteignamarkaði.