151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek undir það að þessi grunur verður alltaf staðfastari og staðfastari í huga manns, að þarna liggi undir einhvers konar tilhneiging til að koma fram mjög pólitískum stefnumiðum í því hvert eigi að vera hlutverk ríkisins og hvert eigi að vera hlutverk einkaframtaksins, og að þetta sé liður í því að auka hlut ríkisins.

Mig langaði til að fara aðeins út í allt aðra sálma. Það er kannski ekki beinlínis efni þessa fjáraukalagafrumvarps en varðar opinberar framkvæmdir, opinberar fjárfestingar. Það hefur lengi verið talað um að við værum í svokallaðri innviðaskuld, og við deilum ekkert um að það er mjög margt sem þarna liggur fyrir. En það sem ég hef oft verið að velta fyrir mér og talað stundum um er hvað okkur gengur illa að eiga framkvæmdir í það minnsta útboðstækar, uppi í hillu, þannig að við þurfum ekki alltaf að leggja af stað nánast — og nú segi ég alltaf, það er kannski ekki alveg sanngjarnt en mjög oft og of oft, sérstaklega þegar beita þarf þessum framkvæmdum, þessum fjárfestingum í því skyni að reyna að draga úr niðursveiflu. Þá er ferillinn svo langur hjá okkur að þetta fer yfirleitt ekki af stað fyrr en kannski væri skynsamlegt að fara að stíga á bremsuna. Kann hv. þingmaður einhverjar skýringar á því af hverju þetta er svona? Ég hjó sérstaklega eftir því í umsögn fjármálaráðs um þessi áform öll, að þeir söknuðu þess einmitt að það væri meiri fyrirhyggja í þessum málum. Getur hv. þingmaður aðeins komið inn á þetta?