151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Flest það sem birtist í þessu frumvarpi til fjáraukalaga eru atriði sem áttu að vera algjörlega fyrirsjáanleg við vinnslu fjárlaga. Það er orðinn nokkur plagsiður hjá ríkisstjórnum, þrátt fyrir tiltölulega nýleg lög um opinber fjármál, að hrúga alls konar óleystum málum inn á frumvarp til fjáraukalaga í stað þess að láta þau vera hluta af heildarmyndinni við vinnslu og samþykkt fjárlaga. Nánast öll atriðin hér gátu verið fyrirsjáanleg í fjárlagavinnunni og maður hlýtur að velta fyrir sér: Hvers vegna er þetta gert með þessum hætti? Eru þetta atriði sem ríkisstjórnin vildi draga sérstaklega fram í aðdraganda kosninga og sleppti þeim viljandi í fjárlagagerðinni eða eru þetta atriði sem þau sjá ástæðu til að bæta við núna vegna þess að það eru að koma kosningar? Í öllu falli þótt farið sé yfir hvert mál fyrir sig er vandfundið mál sem ríkisstjórnin hefði ekki átt að geta séð fyrir þegar fjárlagavinnan stóð yfir.

Í þessu er þó eitt og annað. Fyrst varðandi það vekur einmitt athygli í því samhengi að langstærsti útgjaldaliðurinn á að gilda til 30. september 2021, sem sagt þangað til fimm dögum eftir kosningar. Líklega hefur verið talið fara betur á því að nota síðasta dag mánaðarins en að láta þetta gilda til 26. september. Engu að síður er mjög lítið um það hvernig eigi að leysa það mál sem þar er tekið fyrir og varðar vinnumarkaðinn, hvernig eigi að leysa það til framtíðar. Við erum nýbúin að ræða um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og þar birtist nú mjög takmörkuð framtíðarsýn hvað þetta varðar.

Þó má lesa eitt og annað út úr þessu frumvarpi til fjáraukalaga. Til að mynda, og ég nefni það af því að mér fannst það mjög lýsandi, í kaflanum um samgöngumál þar sem kemur fram að til standi að veita 120 millj. kr. í stuðning við Strætó, sem er félag sem er aðallega í eigu Reykjavíkurborgar og raunar nokkurra annarra sveitarfélaga. Ríkisstjórnin sá greinilega ekki fyrir fjárhagsvanda Strætó við fjárlagagerðina og bætir 120 millj. kr. í sérstakan styrk til Strætó. En hvers vegna er ríkisstjórnin að styrkja Strætó, sem er, eins og ég nefndi, fyrst og fremst í eigu Reykjavíkurborgar? Hvers vegna er ríkisstjórnin að hlaupa undir bagga með Reykjavíkurborg þar sem fjármálin virðast vera í rúst eftir mjög slæma meðferð opinbers fjár þar á bæ? Hvers vegna sér ríkisstjórnin ástæðu til þess að hlaupa undir bagga og aðstoða meiri hlutann í Reykjavík með fjárframlagi? Það er eitt og sér nokkuð sérkennilegt. En þetta er hins vegar áminning um hvers sé að vænta, því að fyrir tíu árum síðan ákvað þáverandi ríkisstjórn, sem var hrein vinstri stjórn, að styðja samherja sína í Reykjavík með því að veita hátt í milljarð króna í stuðning við Strætó í áratug með svokölluðu tilraunaverkefni. Í kaupbæti fékk borgin það að hún þyrfti ekki að ráðast í aðrar umtalsverðar samgöngubætur í heilan áratug. Í rauninni hefði verið eðlilegra ef þetta hefði verið á hinn veginn, að ríkið hefði verið að borga fyrir að fá að ráðast í þær úrbætur á samgöngumannvirkjum borgaranna sem hafa verið stopp núna vegna borgarstjórnarmeirihlutans í mörg herrans ár. En nei, annars vegar ákvað ríkið að styrkja borgina um hátt í milljarð á ári og hins vegar fallast á það að samhliða því yrðu engar verulegar úrbætur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu þótt þær hafi þá þegar verið orðnar mjög knýjandi. Þetta var undarlegt samkomulag, frú forseti, en nú hefur hæstv. samgönguráðherra tilkynnt að þó að tilraunin hafi ekki gengið upp standi engu að síður til að framlengja hana og halda áfram að veita borginni þennan styrk. Og svo bætast við þessar 120 milljónir. Þetta var nefnilega tilraunaverkefni. Því var haldið fram að með þessu móti væri hægt að fjölga mjög verulega farþegum Strætó. Mig minnir að það hafi átt að fjölga þeim úr því að vera 4% ferðafólks á höfuðborgarsvæðinu í 12%. Þegar verkefnið hófst var hlutfallið 4% og þegar því lauk tíu árum seinna var það 4%. Engu að síður ákvað þessi ríkisstjórn að halda því verkefni áfram, tilraunaverkefni sem mistókst gjörsamlega.

Viðbótin upp á 120 milljónir nú er því ákveðin vísbending um hvað muni gerast í samskiptum ríkisins við Reykjavíkurborg varðandi svokallaða borgarlínu, því að þegar ríkisstjórnin ákvað af óskiljanlegum ástæðum að gera samkomulag við borgarstjórnarmeirihlutann um að styrkja það galna verkefni um 50 milljarða kr. til að byrja með, þá lá ekkert fyrir um hver heildarkostnaðurinn yrði né rekstrarkostnaðurinn. Þetta er auðvitað hreint ekki í lagi, að stjórnvöld kasti 50 milljörðum í verkefni sem óljóst er hversu mikið mun kosta og enginn hefur hugmynd um hversu mikið mun kosta að reka. Við höfum séð að sams konar verkefni víða erlendis hafa iðulega farið jafnvel margfalt fram úr kostnaðaráætlun. Hér liggur í rauninni ekki einu sinni fyrir endanleg kostnaðaráætlun. Engu að síður ákvað ríkisstjórnin að kasta í þetta 50 milljörðum til að byrja með því að við vitum ekki hver hlutur ríkisins verður í seinni áföngum verkefnisins þegar kostnaðurinn fer að fara langt fram úr áætlun eða hver hlutdeild ríkisins verður í rekstri þessarar borgarlínu. En hér höfum við þó vísbendingu um það. Tíu ára tilraunaverkefni með ríkisstyrkjum til Strætó gekk ekki upp. Það er framlengt og svo er bætt í 120 milljónum til að styrkja borgina sérstaklega hvað þetta varðar.

Svoleiðis að við getum rétt ímyndað okkur hver raunin verður þegar og ef þetta borgarlínuverkefnið fer af stað og fer langt fram úr áætlun. Svo hefst reksturinn, rekstur á tvöföldu strætisvagnakerfi vel að merkja því að það verður áfram rekið hefðbundið strætisvagnakerfi sem fer um hverfin til að skila fólki að borgarlínunni og kostnaðurinn þar af leiðandi margfalt meiri en nú. Við getum rétt ímyndað okkur hvort ekki verði ætlast til þess að ríkið haldi áfram að fjármagna reksturinn eftir að hafa tekið stóran hluta af reikningnum við framúrkeyrslu á framkvæmdum. Það þurfti nefnilega að pína meiri hlutann í samgöngunefnd Alþingis, held ég að það hafi verið, hugsanlega var það fjárlaganefnd, væntanlega meiri hlutann í fjárlaganefnd til þess að setja inn ákvæði um að það væri ekki sjálfgefið að ríkið myndi bera kostnaðinn af rekstrinum. Það var liður í þinglokasamningum hér og hefði aldrei farið þar inn nema vegna kröfu Miðflokksins. En það segir sína sögu að það hefði þurft að pína inn fyrirvara um að það væri ekki sjálfgefið að ríkið fjármagnaði rekstur. Hér sjáum við enn eina vísbendingu um það í hvað stefnir í því máli eins og öðrum.

Við sjáum þetta auðvitað í mörgum málum. Við sjáum þetta í máli sem verið hefur til umræðu að undanförnu, mál sem mun gjörbreyta umhverfi hælisumsókna hér og er augljóslega til þess fallið að auka útgjöld mjög verulega þegar margfalt fleiri, líklega tífalt fleiri til að byrja með, munu eiga rétt á sömu þjónustu óháð því hvernig þeir komu til landsins sem hælisleitendur, fái þeir hér dvalarleyfi, sama rétt og veittur er kvótaflóttamönnum sem við höfum einsett okkur að gera vel við og taka vel á móti. Það tífaldar þann fjölda sem á rétt á því sama og um leið eykur það augljóslega ásóknina. En það er einfaldlega litið fram hjá því að þetta feli í sér einhvern kostnað. Ég spurði reyndar hæstv. fjármálaráðherra út í þetta og hef gert það í tvígang. Mér fannst hann heldur taka undir áhyggjur mínar, en svo gerist ekki neitt, svo heldur kerfið bara áfram á sinni braut og ráðherrar og þingmenn meiri hlutans mæta hér samviskusamlega og ýta á græna takkann og samþykkja allt saman þrátt fyrir að það sé fyrirsjáanlegt að hlutirnir verði ekki eins og þeim er stillt upp og muni fela í sér aukinn kostnað.

Hversu oft ætli þingið muni þurfa að fara í gegnum frumvarp til fjáraukalaga þar sem verið er að bæta í til að bjarga borgarlínunni eða bæta í vegna meints ófyrirséðs kostnaðar vegna þess að Ísland er búið að ganga þvert á hin Norðurlöndin með sínu hælisleitendakerfi? Er ásættanlegt að mati Alþingis að ríkisstjórn fari fram með þessum hætti í ríkisfjármálum? Mér finnst það ekki, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða mjög fyrirsjáanleg útgjöld eins og þeir liðir sem birtast í þessu frumvarpi og í þeim dæmum sem ég hef nefnt hérna til samanburðar.

Frú forseti. Ég ætla ekki að rekja hér hvert atriði fyrir sig enda hef ég ekki tíma til þess. En ég vil þó nota tækifærið til að ítreka það sem ég kom aðeins inn á áðan og varðar langstærsta útgjaldaliðinn, sem eru atvinnumálin eða bætur vegna atvinnuleysis. Hér vantar algjörlega framtíðarlausnina hjá ríkisstjórninni. Þetta er enn ein bráðabirgðareddingin. En hvernig á að leysa þetta eftir 30. september, eftir kosningar? Það er ekki hægt að búa til störf á Íslandi og skapa þannig verðmæti nema starfsumhverfi fyrirtækja sé í lagi. En starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja, sérstaklega minni og meðalstórra fyrirtækja, hefur jafnt og þétt farið versnandi, m.a. undir forystu þessarar ríkisstjórnar þar sem það er orðið afskaplega erfitt að reka, ég tala nú ekki um stofna lítið fyrirtæki vegna þess hversu íþyngjandi allt regluverkið er og hversu neikvæðir eða erfiðir efnahagslegu hvatarnir eru orðnir. Fyrir vikið verða þessi mál ekki leyst til framtíðar nema með því að bæta rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja til mikilla muna þannig að þau treysti sér í auknum mæli til að ráða fólk í vinnu og fólk sjái ástæðu til að þiggja vinnunna. Það er augljós vísbending um að ekki sé allt með felldu í því hvernig stjórnvöld hafa nálgast þetta mál að mörgum gengur erfiðlega að fá fólk til starfa á sama tíma og atvinnuleysi er jafn mikið og raun ber vitni.

Þetta eru mál sem hefði átt að vera búið að leysa nú þegar svoleiðis að við stöndum ekki frammi fyrir því (Forseti hringir.) þegar þetta rennur út nokkrum dögum eftir kosningar að vera á byrjunarreit.