151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[20:42]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma aðeins inn á þetta mál og kannski ekki síst það efni sem hér var síðast rætt. Fyrst langar mig þó að byrja á, bæði af því að það er gott að gera það og einnig af því að ég meina það innilega, að hrósa hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að hafa haldið gríðarlega vel utan um þetta mál sem framsögumaður innan hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er flókið að fjalla um þessi mál, þetta og fleiri mál sem eru í umræddri nefnd, eins og um kosningalög, þannig að það er ekkert auðvelt að halda þannig utan um að allir þræði haldi í gegnum það allt. Hv. þingmaður á hrós skilið fyrir hversu vel það tókst til.

Þá langaði mig rétt að koma inn á þær breytingar sem hér eru lagðar til, annars vegar í nefndaráliti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en eins í frumvarpinu sem kemur upphaflega frá þingskapanefnd. Ég held að við getum verið nokkuð ánægð með okkur að hafa náð að gera þessar breytingar sem margar eru, ef ekki allar, til mikilla bóta. Sumir í þessum sal vildu örugglega sjá eitthvað af þessu öðruvísi og annað að ganga lengra og hitt skemur. En við verðum að taka tillit til allra sjónarmiða þegar við setjum reglurnar sem við verðum öll að fara eftir. Hér hefur verið býsna vel að verki staðið.

Aðeins hvað varðar svartíma ráðherra, því að það var töluvert rætt í nefndinni, þá finnst mér mikilvægt að horfast í augu við allar hliðar þess máls. Ég hygg, herra forseti, að árið 2011 hafi verið ákveðið að svartíminn skyldi vera 15 virkir dagar. Það er engin heilög tala. Það er ekki stjórnarskrárbundinn réttur þingmanna að fá svar innan þess tímafrests. Þetta var ákveðið miðað við aðstæður á þeim tíma að væri sanngjarn og eðlilegur tímafrestur.

Síðan hefur ýmislegt breyst. Það hefur breyst að fyrirspurnum hefur fjölgað, sem hefur vissulega haft áhrif, en líka hefur það breyst að ráðuneytin hafa tekið sér lengri tíma í að svara fyrirspurnum óháð fjölda þeirra. Þannig að hvort tveggja hefur gerst.

Hér hefur verið talað um viðurlög. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson talaði um það á undan. Það er ágætt að við höfum það í huga að í núverandi þingskapalögum segir, með leyfi forseta:

„Takist ráðherra ekki að svara fyrirspurninni innan þess frests sem ákveðinn er í þessari grein skal hann gera forseta Alþingis skriflega grein fyrir því, svo og hver ástæðan er og hvenær vænta megi svars til Alþingis.“

Þannig að uppfylli hæstv. ráðherra þessi ákvæði laga um þingsköp þá er erfitt að sjá annað en að hann uppfylli þingsköpin og gerist ekki brotlegur við þau. Við ræddum það hins vegar í nefndinni hvort þyrfti að skerpa á þessu, að það væri rökstuðningur með því ef ekki tækist að svara innan frestsins sem upp er gefinn. Rökstuðningur sem bæði þyrfti að fara til forseta og jafnvel til þess hv. þingmanns sem á fyrirspurnirnar hverju sinni. Þetta yrði með öðrum orðum heldur meira samtal um það af hverju ekki hefði tekist að svara, því að það geta verið mjög eðlilegar ástæður fyrir því.

Ég er sannfærður um það, forseti, að hv. þingheimur mun halda áfram að vinna að lögum um þingsköp því að það er mjög mikilvægt að þau séu alltaf í þróun eftir því sem aðstæður breytast. Ég er algerlega sannfærður um að þetta er eitt af því sem verður skoðað. Í mínum huga er það einfalt að ef einhverju fyrirbæri eins og fyrirspurnum fjölgar til muna þá þarf að horfa á annað af tvennu; annaðhvort þarf að hugsa með sér að það taki þá meiri tíma innan sama mengis að svara þeim, eða þá að það þurfi að fjölga þeim starfsmönnum sem vinna við að svara fyrirspurnunum ef mengið, tíminn, á að halda sér. Þetta held ég að hv. þingmenn þurfi að horfa til í framtíðinni: Hver er fjöldi fyrirspurna sem fara héðan? Hver er fjöldi starfsmanna sem svara þeim og innan hvaða tíma og finna einhverja niðurstöðu? Og í þeirri vinnu er alltaf að hafa í huga rétt þingmanna til að leggja fram fyrirspurnir og fá við þeim svör.