Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Með lögum nr. 14/2023 samþykkti Vinstrihreyfingin – grænt framboð einróma frumvarp Sjálfstæðisflokksins um breytingar á lögum um útlendinga sem beinlínis brjóta á rétti barna á flótta. Breytingin sem ég er að tala um lýtur að því að svipta börn rétti til dvalar hér á landi vegna athafna annarra, svo sem foreldra, annarra aðstandenda eða jafnvel lögmanns barnsins, sem taldir eru hafa tafið málsmeðferðina. Lagaákvæðið, sem þarna var breytt og hefur verið í 36. gr. laga um útlendinga frá árinu 2016, var samið af þverpólitískri nefnd í þeim tilgangi að koma í veg fyrir þau tilvik sem þá voru að gerast ítrekað; að börnum á flótta væri vísað úr landi eftir margra mánaða og jafnvel ára dvöl, búin að læra íslensku, eignast vini og festa rætur, mynda sérstök tengsl. Með sama frumvarpi fannst þingmönnum Vinstri grænna líka góð hugmynd að fela hæstv. dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins heimild til að setja reglugerð til nánari útfærslu á ákvæðinu. Í samráðsgátt hafa nú verið birt drög að slíkri reglugerð. Sem fyrr segir er upphaflegur tilgangur þessa lagaákvæðis m.a. að koma í veg fyrir að barn sem hefur dvalið hér á landi svo mánuðum eða jafnvel árum skiptir og búið að mynda hér það sem allt eðlilegt fólk myndi kalla sérstök tengsl við landið verði flutt úr landi. En í reglugerðinni sem dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hyggst setja til nánari útfærslu á þessu ákvæði segir, með leyfi forseta:

„Tengsl sem umsækjandi myndar við Ísland eftir framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd og þau tengsl sem mynda rétt til fjölskyldusameiningar skv. VIII. kafla laga um útlendinga, teljast ekki til sérstakra tengsla.“

Til hvers er Vinstrihreyfingin – grænt framboð í þessari ríkisstjórn? Aðspurð út í þetta og þegar bent er á aðgerðaleysi hreyfingarinnar í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hefur gjarnan verið tekið þannig til orða að þau séu í þessu samstarfi til að koma í veg fyrir slæma hluti. (Forseti hringir.) Ef þar ekki átt við að koma í veg fyrir fyrirætlanir Sjálfstæðisflokksins um að setja lög og reglur sem brjóta í bága við grundvallarréttindi barna á flótta, hvað þá?