Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Í gær voru til umfjöllunar í fjölmiðlum sláandi niðurstöður úr skýrslu Matvælastofnunar um veiðar á stórhvelum. Niðurstaða stofnunarinnar er að veiðar á stórhvelum samræmist ekki markmiðum laga um velferð dýra. Grundvöllur þessarar skýrslu er setning reglugerðar hæstv. matvælaráðherra frá síðasta sumri sem veitti Matvælastofnun heimild til að viðhafa reglubundið eftirlit við hvalveiðar. Tilgangur eftirlitsins var að stuðla að bættri velferð dýra við hvalveiðar og nú liggja þessar niðurstöður fyrir.

Í skýrslunni er að finna tölur um veiðar á stórhvelum og eru niðurstöðurnar síst til þess fallnar að rökstyðja áframhaldandi hvalveiðar. Og nú vitum við enn betur, studd gögnum, hvernig veiðum er háttað hér við land. Í skýrslunni kemur fram, með leyfi forseta, að miðgildi tíma frá fyrsta skoti til dauða hvala sem drápust ekki strax var 11,5 mínútur. Fyrir tilstilli umræddrar reglugerðar vitum við að 24% þeirra langreyða sem veiddar voru voru skotnar oftar en einu sinni.

Gildismat í samfélaginu hefur breyst. Við gerum ríkar kröfur til þess að dýr séu aflífuð með skjótum og sársaukalaust hætti og forðast skal að valda dýrum óþarfa þjáningum eða hræðslu. Það að skjóta hvali af færi með skutli fylltum sprengiefni er eins og að stunda veiðar með flugskeyti. Þvílíkt offors. Og til hvers? Til að selja hvalkjöt á örmarkaði úti í heimi?

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst í mínum huga að hvalveiðar eiga ekki upp á pallborðið í nútímasamfélagi. Með þessi gögn til grundvallar verðum við að hafa alvöruþrek til að ræða þessi mál til hlítar. Að mínu mati tilheyrir þessi atvinnugrein fortíðinni en ekki framtíðinni.