Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Notkun ópíóíðalyfja.

[14:22]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka ráðherra fyrir að mæta í þessa mikilvægu umræðu hér í dag. Við horfum upp á afleiðingar ofneyslu áfengis og vímuefna alla daga. Neysla breytist, léttvín kemur í stað sterkra drykkja en harðari efni og stórhættuleg lyf koma í staðinn fyrir veikari efni. Langur opnunartími veitingastaða um helgar setur slíkt álag á bráðaþjónustu Landspítalans að heilbrigðisstarfsfólk er við það að bugast og ástandið er eins og faraldur allar helgar. Þetta ástand er mannanna verk, gjaldið fyrir lítt heftan opnunartíma veitingastaða fram á morgun sem þekkist ekki í nágrannalöndum okkar. Á meðan erum við ekki tilbúin að kosta afleiðingarnar. Meðferðarúrræði haldast ekki í hendur við alvarleikann og tilfellin verða fleiri og alvarlegri. Fleiri deyja ungir.

Nýjustu upplýsingar um dánartíðni ungs fólks, líklega vegna ofskömmtunar og afar sterkra verkjalyfja, Fentanyls og kókaíns, eru hrikalegar. Allt árið 2022 létust 37 einstaklingar og fyrstu þrjá mánuði þessa árs hafa 32 látist. Ef þróunin heldur áfram óáreitt gætu 160 einstaklingar látist á þessu ári vegna þessa ógnarfaraldurs. Þrátt fyrir fjölgun dauðsfalla sjúklinga með fíknisjúkdóma og stöðuga þörf fyrir meðferð á liðnum árum standa framlögin í stað. Þau taka ekki mið af aukinni þörf. Biðlistar lengjast og unga fólkið deyr áður en það kemst í hendur fagfólks.

Alþingismenn eru duglegir við að leggja fram tillögur um aukið aðgengi að vímugjöfum, víni og fíkniefnum. Þeir vilja auka framboðið og refsileysi sem kallar á aukna neyslu og fleiri dauðsföll hjá ungu fólki. En í þingsal kallar það fólk ekki á fleiri meðferðarúrræði til að mæta frjálsræðinu. Það er skylda mín sem þingmanns að verja þá einstaklinga sem ekki eru færir um að gæta að sér sjálfir. Á meðan við setjum ekki nægilegt fjármagn til að mæta síauknum fjölda fólks með fíknisjúkdóma sem þarfnast meðferðar verður ekki skrúfað meira frá frjálsræðiskrananum. Hvert líf sem við getum bjargað er ómetanlegt og vissulega verðum við að skoða stöðu veikasta hópsins. Nýlega kom fram að einn læknir ávísaði 3,6 kílóum af morfíni og Oxycontin á fjögurra ára tímabili til eins einstaklings. Til viðbótar voru önnur ávana- og fíkniefni sem læknirinn vísaði á sama sjúkling.

Virðulegi forseti. Á Íslandi hefur náðst árangur á heimsmælikvarða þegar kemur að fjölda þeirra sem ná bata eftir fíknimeðferð, en við eigum langt í land með að fjármagna þann hluta heilbrigðiskerfisins. Stór hluti reksturs sjúkrahússins á Vogi, Hlaðgerðarkots og Krýsuvíkur er rekinn með sjálfsaflafé og með sjálfboðaliðastarfi hundruða manna og kvenna.

Ég hef nýlega bent á vaxandi vanda vegna ópíóíðafíknar en þær fréttir voru bara toppurinn á ísjakanum. Nú liggja fyrir hremmingar í þessum málaflokki ef 160 einstaklingar deyja fyrir aldur fram af afleiðingum neyslu vímuefna á þessu ári. Við erum að tala um fjórföldun á dauðsföllum. Af þeim sökum vöknuðu þessar spurningar til ráðherra:

Árið 2014 var gerður þjónustusamningur við SÁÁ um meðferð við ópíóíðafíkn fyrir 90 einstaklinga. Þá voru samt sem áður 117 sjúklingar í slíkri meðferð. Á síðasta ári hafði sá fjöldi þrefaldast, farið upp í 347, en Sjúkratryggingar Íslands greiða enn fyrir 90 manns — 90 manns. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að SÍ greiði með fleiri sjúklingum, auki bráðahjálp og bendi á leiðir í frekari meðferðarúrræði?

Ég spyr líka: Hlutfall þeirra sem leggjast inn á sjúkrahúsið Vog með ópíóíðafíkn hefur aukist um 77%. Á sama tíma hefur SÁÁ dregið úr innlögnum á Vog, sumarlokanir í inniliggjandi meðferð á Vík og eftirfylgniúrræði göngudeildar loka með sumarlokunum vegna fjárskorts. Á sama tíma er gert ráð fyrir fjórföldun á dauða einstaklinga sem misnota ópíóíða. Er ráðuneytið með tölur yfir þá sem ekki fá aðgang að meðferð á þessu ári? Ef svarið er nei, hvernig ætlar ráðherra að tryggja aðgengi að frekari meðferð?

Lyfjameðferðir við ópíóíðafíkn með gagnreyndum lyfjum fækka dauðsföllum af öllum orsökum í þessum hópi. Ráðherra hefur nefnt í fjölmiðlum að setja á laggirnar morfínklíník sem skaðaminnkandi úrræði. Í ljósi þess að morfínlyf fela í sér hættu á ofskömmtun, sérstaklega ef þeirra er neytt með því að sprauta í æð eða með reyk, hefur ráðherra íhugað að auka þess í stað aðgengi að skaðaminnkandi lyfjameðferð með gagnreyndum lyfjum sem fækka dauðsföllum og gefin eru á göngudeild Vogs?