Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Notkun ópíóíðalyfja.

[14:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir að taka hér upp þetta brýna mál um notkun ópíóíðalyfja og fíknivanda. Fyrst að þjónustusamningum við SÁÁ sem hv. þingmaður spyr um og hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að greiða með fleiri sjúklingum og benda á aðrar leiðir, önnur meðferðarúrræði. Einfalda svarið við seinni hlutanum er já. Ég hef fjölmargar tillögur þar fram að færa og hef þegar lagt þær fyrir ríkisstjórn og það hefur verið samþykkt þannig að við förum í þá vinnu. En um samningana við SÁÁ. Það eru fjórir mismunandi samningar milli Sjúkratrygginga og SÁÁ sem liggja til grundvallar fjárveitingum ríkisins til samtakanna þar sem samið er um veitingu heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með fíknivanda. SÁÁ fékk tímabundið framlag í ár, 2023, að upphæð 120 millj. kr. til almenns reksturs. Heildarfjárframlög ríkisins til SÁÁ eru því árið 2023 liðlega 1,4 milljarðar eða 1 milljarður og 385 millj. kr. Þar hefur verið samið um við SÁÁ um að nýta fjármagnið til að veita einstaklingum með fíknisjúkdóma þjónustu á Vogi, endurhæfingu á Vík, göngudeildarmeðferð á göngudeildum sínum í Reykjavík og á Akureyri og lyfjameðferð við ópíóíðafíkn. Tekur fjórði samningurinn einmitt til þeirrar lyfjameðferðar, eins og hv. þingmaður fór hér yfir.

Á nýlegum fundum heilbrigðisráðherra og fulltrúa SÁÁ hefur ítrekað verið rædd nauðsyn þess að breyta fyrirkomulagi samninga og vinna að því að gera einn heildarsamning um þá heilbrigðisþjónustu sem SÁÁ veitir fólki með fíknivanda. Slíkar breytingar eru í samræmi við heilbrigðisstefnu til ársins 2023 þar sem markmiðið er að auka þjónustutengda fjármögnun í heilbrigðisþjónustu á landsvísu. Þjónustutengd fjármögnun skapar tækifæri til að stýra fjármunum sem varið er til heilbrigðisþjónustu í samræmi við þjónustuþörf á hverjum tíma út frá kostnaðar- og þarfagreiningu. Með þjónustutengdri fjármögnun skapast því betri tækifæri fyrir þjónustuveitendur að bregðast hratt við og breyta áherslum eftir því sem þörf samfélagsins breytist. Slíkur sveigjanleiki í framþróun heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með fíknivanda er nauðsynlegur því að neysluvenjur samfélags hvað vímuefnanotkun varðar taka oft hröðum breytingum.

Lyfjameðferð við ópíóíðafíkn, viðhaldsmeðferð, er veitt hjá SÁÁ og mismunandi deildum Landspítala og geðheilsuteymi fanga. Einstaklingum í viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn hefur fjölgað úr 374 árið 2021 í 457 árið 2022, samkvæmt upplýsingum frá lyfjanefnd Landspítala sem hefur yfirsýn yfir notkun lyfjanna sem notuð eru á landsvísu. Varðandi hlutfall þeirra sem leggjast inn á sjúkrahúsið á Vogi og eftirfylgdarúrræði og þá stöðu sem uppi hefur verið og hv. þingmaður kom inn á þá hefur, síðan samningur milli SÍ og SÁÁ var gerður um lyfjameðferð við ópíóíðafíkn 2014, þeim einstaklingum sem þiggja þá meðferð þar fjölgað um 66%. Það voru árið 2014 203 einstaklingar og 2022 voru það 329 einstaklingar. Það er mikilvægt að hafa í huga að flestir þeirra einstaklinga sem þiggja meðferðina eru á henni til lengri tíma og því eykst fjöldi einstaklinga á meðferðinni með tímanum, sem er líka vísbending um það að við erum að ná til fólks og hjálpa fleirum. Rúmlega 60% þeirra sem eru á meðferðinni hafa komið inn á hana á tíu ára tímabili. Einnig þarf að hafa í huga að aðrir aðilar veita viðhaldsmeðferð, eins og m.a. smitsjúkdómadeild Landspítalans og geðheilsuteymi fanga. Það er verið að vinna að því að auka aðgengi að þessari mikilvægu meðferð í samráði við alla þjónustuaðila.

Að þessu sögðu og tengt því sem hv. þingmaður kom inn á um dauðsföll vegna ópíóíða þá þarf auðvitað að skoða gögn og staðreyndir, en það er mikilvægt að halda því til haga að eitt dauðsfall vegna fíknisjúkdóma, hvort sem það er vegna ópíóíða eða annars, er einu dauðsfalli of mikið. Þess vegna hefur öll ríkisstjórnin samþykkt að fara samhent í að ná betur utan um þennan hættulega sjúkdómsflokk, fíknisjúkdóma, orsakir og afleiðingar. Ég kem nánar inn á það síðar í umræðunni.