Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. velferðarnefndar í máli 860, aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2028.

Aðgerðaáætlunin byggist á viljayfirlýsingu félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands eldri borgara um að auka samstarf varðandi málefni eldra fólks. Tillögunni er skipt upp í fimm meginþætti sem hafa að geyma nánar tiltekin undirverkefni. Meginþungi þeirra aðgerða sem lagt er til að ráðast í með tillögunni liggur í þróunarverkefnum þar sem samþætting, nýsköpun og prófanir nýtast til ákvarðanatöku um framtíðarskipulag við eldra fólk. Þá eru lagðar til aðgerðir sem hafa það að markmiði að auka sveigjanleika í þjónustu, heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu og betri aðgang að ráðgjöf og upplýsingum.

Meiri hlutinn telur tillöguna fela í sér jákvæð og mikilvæg skref í þá átt að skapa framtíðarsýn um hvaða leiðir verða farnar við að bæta þjónustu við eldra fólk og leggur áherslu á að hún nái fram að ganga.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi. Í þeim umsögnum sem bárust og í máli þeirra gesta sem komu á fund nefndarinnar var lýst ánægju með þær aðgerðir sem lagðar eru til, þó að hagaðilar hafi sumir viljað ganga lengra til þess að ná þeim markmiðum sem stefnt er að.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti hv. velferðarnefndar árétta sérstaklega: Nefndin fjallaði um samþættingu heimaþjónustu, en í lið A.1 í aðgerðaáætluninni er lagt upp með að samþætting heimaþjónustu stuðli að skilgreindri félags- og heilbrigðisþjónustu sem bæði ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á og verði veitt fólki sem býr í heimahúsi. Með aðgerðinni er lögð áhersla á að íbúar upplifi að þjónustuúrræði styðji við búsetu þeirra heima auk þess sem hægt verði að treysta á að eitt þjónustuúrræði taki við af öðru þegar þjónustuþörf eykst.

Þá fjallaði nefndin um þróun dagdvalar, en í lið A.3 er kveðið á um það markmið að fresta sem lengst þörf fyrir dvöl á hjúkrunarheimili með því að aðlaga þjónustu dagdvalar þannig að hún komi betur til móts við þarfir eldra fólks sem býr heima og fjölskyldur þess. Auk þess er ætlunin að skýra betur fyrir hvaða einstaklinga úrræðið dagdvöl er og hverju það eigi að skila þeim einstaklingum sem nýta sér þjónustuna. Í athugasemdum um aðgerðina í greinargerð kemur fram að viðhald hárrar virknigetu 80–89 ára fólks stuðli að heilbrigðri öldrun og miklum samfélagslegum ávinningi.

Nefndin fjallaði auk þess um stuttinnlagnir, en aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir því að komið verði á möguleika á innlögn til skamms tíma á hjúkrunarheimili. Með aðgerðinni er þannig gert ráð fyrir því að hjúkrunarheimili geti boðið upp á slík rými fyrir einstaklinga sem lokið hafa bráðameðferð á sjúkrahúsum en þurfa í kjölfarið af einhverjum ástæðum á lengri dvöl að halda. Við meðferð málsins komu m.a. fram sjónarmið um að tryggja þurfi meiri viðbragðshraða, að hlutverk þeirra aðila sem veita þjónustuna þurfi að vera skýrt afmörkuð og lagt til að í slíkum úrræðum verði boðið upp á andlega, líkamlega og vitræna virkni. Þá komu fram sjónarmið um að úrræði af þessu tagi þurfi að vera sveigjanleg og horfa þurfi til aðstandenda í þeim efnum.

Meiri hlutinn bendir á að um er að ræða aðgerð sem hefur það að markmiði að takmarka dvöl eldra fólks á sjúkrahúsi eftir að eiginlegri meðferð er lokið. Úrræðið er eingöngu ætlað fyrir þá einstaklinga sem lokið hafa meðferð, þar með talið endurhæfingarmeðferð. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til þess að gera breytingu á þessum hluta áætlunarinnar en beinir því í nefndaráliti til verkefnisstjórnar að hafa athugasemdir umsagnaraðila til hliðsjónar við framkvæmd verkefnisins, enda er brýnt að rými til stuttinnlagna verði nýtt af þeim einstaklingum sem þurfa á þeim að halda en ekki öðrum hópum.

Þá fjallaði nefndin um stöðu eldra fólks með fötlun, en við meðferð málsins komu fram sjónarmið frá umsagnaraðilum og gestum sem komu á fund nefndarinnar að um sé að ræða hóp sem sérstaklega þarf að taka tillit til. Mikilvægt væri að þessi hópur, sem er auðvitað mjög fjölbreyttur, fái viðeigandi þjónustu í takt við sínar þarfir. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið, enda er brýnt að réttindi fatlaðs fólks séu virt við framkvæmd þessarar aðgerðaáætlunar og að eldra fólk fái viðeigandi stuðning og þjónustu og að þjónustuveitendur veiti fötluðum einstaklingum eftir fremsta megni val um búsetuúrræði.

Að auki fjallaði nefndin um rannsóknarstarfsemi innan öldrunarfræða, en í lið C.2 í aðgerðaáætluninni kemur m.a. fram að stutt verði við fyrirhugaða eflingu Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum þar sem markmið og verkefni hennar verði útvíkkuð, safnað verði tímanlegum og samræmdum upplýsingum um félags- og heilbrigðisþjónustu eldra fólks. Þá verður gerð rannsókn á framgangi og niðurstöðum þróunarverkefna. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram komu við meðferð málsins og fagnar því að unnið sé að frekari rannsóknum á þessu sviði.

Virðulegi forseti. Hér hef ég farið í stuttu máli yfir þær aðgerðir sem fram koma í áætluninni, en nánar er fjallað um þær og meðferð málsins í nefndaráliti hv. velferðarnefndar. Um er að ræða mikilvægt mál sem getur haft í för með sér breytingar til batnaðar í málefnum eldra fólks, nái tillaga þessi fram að ganga.

Meiri hlutinn leggur til þrjár minni háttar breytingartillögur við aðgerðaáætlunina. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á heiti aðgerðar A.3, með það að markmiði að heitið verði bæði skýrara og endurspegli betur það sem aðgerðin felur í sér. Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til breytingu á heiti aðgerðaáætlunarinnar. Byggist sú tillaga á því að þær aðgerðir sem lagðar eru til í þingsályktunartillögunni eru tímasettar frá árinu 2023 til ársins 2027, en ekki frá 2024–2028, líkt og upphaflegt heiti bar með sér.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti hv. velferðarnefndar til að þingsályktunartillaga þessi verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálit meiri hluta hv. velferðarnefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, háttvirtir þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halldóra Mogensen og Óli Björn Kárason.

Herra forseti. Ég vil að lokum ítreka það sem kom fram í framsögu hæstv. ráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar, að það sem skiptir mestu máli er að hér erum við að leggja upp í leiðangur á landsvísu sem hefur það að markmiði að umbylta þjónustu við eldra fólk. Við viljum auka lífsgæði eldra fólks, m.a. með því að auka möguleika þess á að búa heima og koma betur til móts við einstaklingsmiðaða þjónustu því við vitum að eldra fólk er virði en ekki byrði. Það er mín von að samfélagið allt taki þátt í þessum leiðangri, okkur öllum til heilla. — Ég hef lokið máli mínu.