Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[15:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í andsvör til að skýra út fyrir þingheimi þann fyrirvara sem fulltrúi Pírata í nefndinni gerði, en við erum með á meirihlutaálitinu. Aðgerðaáætlunin er í megindráttum góð og felur í sér ágæt skref til að greina vandamál, safna upplýsingum og þróa frekari aðgerðir. En það má benda á að í aðgerðaáætluninni eru sárafáar aðgerðir sem munu koma til með að leysa þann vanda sem þegar blasir við í málaflokknum. Þjónusta við eldri borgara er illa fjármögnuð sem leiðir af sér margs konar vandamál. Eitt stærsta verkefnið sem blasir við er gríðarlegur skortur á dvalar- og hjúkrunarrýmum sem leiðir svo af sér mikinn fráflæðisvanda í heilbrigðiskerfinu. Aðgerðaáætlunin tekst ekki á við þetta gríðarlega aðkallandi mál né nokkur önnur af stærstu viðfangsefnum málaflokksins, heldur snýst einna helst um greiningar og stefnumótun. Núverandi vandi hefur margoft verið greindur og fyrir liggja upplýsingar um hvernig á að bregðast við, sem felst einna helst í því að veita þarf aukið fjármagn í málaflokkinn, ekki bara þessa 2 milljarða sem eiga að fylgja þessu. Því miður virðist staðan vera sú að biðin eftir raunverulegum fjármögnuðum aðgerðum verði einhverjum árum lengri þar sem þær er ekki að finna í þessari aðgerðaáætlun.