Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þingmaður segir, að tryggja eldra fólki þjónustu og allt það eins og fram kom í ræðunni áðan og áhyggjulaust ævikvöld eins og við höfum oft talað um. En það erum við ekki að gera. Við gerum það ekki með því sem gert er ráð fyrir í þessari aðgerðaáætlun, tveimur starfsmönnum á Ísland.is. Hvernig kemst eldra fólk inn á Ísland.is? Er það ekki með rafrænum skilríkjum eða — ég man ekki einu sinni hvað hitt heitir sem við erum að nota? Í það minnsta get ég sagt: Það eru hátt í 60.000 eldri borgarar í landinu sem eru 67 ára plús. Hvað haldið þið að margir af þeim séu ekki með rafræn skilríki og muni ekki geta hringt í þessa tvo fulltrúa inn á Ísland.is sem eiga að vera til svara fyrir tugþúsundir eldri borgara? Ég segi bara þetta: Þetta er gjaldfelling á þingsályktun Flokks fólksins. Þetta er alger gjaldfelling vegna þess að embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks sá um allt þetta og þingsályktunin fól það í sér að fela ráðherra að skipa starfshóp sem útfærði embættið eins og kostur var, til að gera sem mest og best úr því, til þess að geta þjónustað og tekið utan um eldra fólk. Þessi aðgerðaáætlun lýtur aðallega að upplýsingum og þjónustu, ekki í rauninni að þessari hagsmunagæslu sem hagsmunafulltrúi eldra fólks átti að sinna eins og að kortleggja þá sem eru að einangrast og koma í veg fyrir félagslega einangrun og allt þetta og taka frumkvæði og stíga fram fyrir skjöldu og virkilega taka utan um eldra fólk. Við sáum þetta fyrir okkur meira þannig og þetta var samþykkt. Þess vegna spyr ég aftur: Finnst hv. þingmanni það eðlilegt að vilji löggjafans sem var skýr skuli svona gjörsamlega fótum troðinn? Það er ekkert sem ég hef séð á teikniborði hæstv. ráðherra sem bendir til þess að hann sé að halda áfram að vinna með málið, ekki neitt. En ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér hvað það varðar.