Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:18]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir sína framsögu. Mig langaði aðeins til að koma upp af því að ég heyrði að hv. þingmaður var að velta fyrir sér og ræða mikilvæga innviði í samhengi skipulagsvaldsins. Ég held að þetta sé umræða sem er algerlega vert að taka oft og þykkja. Hún velti hér upp reynslu og upplýsingum sem við fengum þegar við vorum í sameiginlegri ferð til Skotlands, umhverfis- og samgöngunefnd, sem var um margt mjög áhugaverð og merkileg og margt gott sem kom þar fram. Ég skil hv. þingmann þannig að þetta snúist kannski ekki minnst um lýðræðislega aðkomu en einnig á hvaða tímapunkti ákvarðanir eru teknar og hver það er þá sem tekur ákvarðanirnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þetta, en samkvæmt raforkulögum þá segir að það sé flutningsfyrirtækið sem skuli leggja fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun sem snýst þá um uppbyggingu flutningskerfisins. Stjórnsýslustofnunin Orkustofnun fer svo yfir og samþykkir áætlunina með hliðsjón af, með leyfi forseta, „markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Orkustofnun skal við yfirferð kerfisáætlunar hafa samráð við alla núverandi og væntanlega viðskiptavini flutningsfyrirtækisins […] og gæta þess að tillit sé tekið til þess sem fram kemur í samráðsferlinu.“ Þetta á allt saman að vera opið og gegnsætt og ákvörðun stofnunarinnar er kæranleg. Telur hv. þingmaður mikilvægt að það sé ríkari og meiri lýðræðisleg aðkoma að ákvörðun um kerfisáætlun, svo sem hér á Alþingi?