Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans svar. Það sem ég er í rauninni að velta fyrir mér er hvernig hv. þingmaður fær það út að hér sé verið að þvinga fram einhverja niðurstöðu. Hér er verið að skapa samráðsgrundvöll og vettvang fyrir sveitarfélög þar sem þau geta rætt saman ásamt aðilum frá innviðaráðherra, vegna þess að þetta er skipulagsmál, þar sem hægt er að fá ráðleggingar og upplýsingar. Það er líka þarna aðili frá orkumálum vegna þess að þetta er klárlega raforkumál.

Ég velti því fyrir mér hvert hv. þingmaður er að fara með þetta, að það sé verið að þvinga fram niðurstöðu. Ég trúi því að þarna sé vissulega jafnræðis gætt því að það er verið að hlusta á sveitarfélögin og þeirra afstöðu og þau eru að leita sameiginlegra lausna til að ná niðurstöðu í mál. Hv. þingmaður ræddi hérna áðan að ef ágreiningur væri til staðar þá færi hann til dómstóla. Já, það gæti alveg verið. En ástæðan fyrir því að hér er verið að leggja þetta verkfæri fram er vegna núverandi ferla og að það sé þá hægt, komi til ágreinings, sem gerist vonandi sem sjaldnast, að grípa í þetta fyrir m.a. sveitarfélögin, finni þau fyrir ágreiningi. Það er oft erfiðara þegar sveitarfélög eru sérstaklega ræða við framkvæmdaraðilann en ekki sín á milli og ég held að það sé afar mikilvægt að þau hafi þennan sameiginlega vettvang til að setjast niður og ræða. Að því sögðu þá tel ég að vettvangurinn sé til staðar. Ég hef kannski ekki frekari spurningar til hv. þingmanns en ég bara velti því fyrir mér hvernig hann fær þetta út, að það sé verið að þvinga fram einhverja niðurstöðu með skipun þessarar nefndar.