Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:46]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir seinna andsvar. Um þetta er enginn ágreiningur. Við vitum þetta alveg. Það eru fleiri verkefni; það er rafvæðing hafna, það er rafvæðing bílaflotans, þetta eru verkefni sem þarf að standa að. Eins og ég vék að í fyrra svari þá leikur enginn vafi á því að við þurfum að byggja upp og við þurfum að geta leyst úr ágreiningi. En við þurfum líka að passa upp á það að þau meðul sem við grípum til standist viðmið um meðalhóf. Ef hægt sé að leysa úr ágreiningi með vægari úrræðum þá sé réttara að grípa til þeirra. Við höfum kannski ríkar skyldur til þess að leyfa umhverfinu að njóta vafans líka, að fulltrúar hagsmuna náttúrunnar þurfi líka að fá að hafa sína rödd. Ekkert af þessu ætti að þýða það að einhverjir þessara aðila hefðu neitunarvald, ekki neinn aðili í nefndinni ætti að geta þvingað fram eina eða aðra niðurstöðu. En það er bara því miður það sem mér sýnist vera vandamálið. Mér sýnist vandamálið raunverulega snúast um að það sé hægt að þvinga fram eina niðurstöðu. Það sem Landsnet ákveður má ekki vera raunverulega gullstandardinn. Landsnet hlýtur að þurfa að geta gert málamiðlanir til að koma til móts við aðila, til að koma til móts við sjónarmið sveitarfélaganna um uppbyggingu og hvernig eigi að standa að þessu. Það er það sem málið snýst um.