Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld.

432. mál
[21:11]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Já, það er jákvætt og ég held að það sé einmitt mjög brýnt að við séum svolítið á tánum með þetta. Það þarf að vera okkar hlutverk hér á Alþingi að tryggja hagsmuni og tryggja nýsköpun, að við sjáum til þess að íslensk nýsköpunarfyrirtæki búi ekki við verri tækifæri en önnur og það er jákvætt að þarna sé gert grein fyrir því að þetta eigi að skoða. En ég heyrði ekki að það hefði verið skoðað, eða var ég að misskilja? Var skoðað hvernig staðið er að þessari löggjöf annars staðar, t.d. í nágrannaríkjum, í Skandinavíu og í Bretlandi, sem eru lönd sem við förum gjarnan til? Kæmi þá til greina að kanna það og athuga hvort það væri tækifæri til þess að bregðast við núna ef það eru einhver atriði þarna sem gætu staðið í mögulegum fjárfestum eða mögulegum starfsmönnum þessara fyrirtækja? Það getur alveg verið að starfsfólk sem kynnir sér þessa samninga geti líka sett það fyrir sig ef ákvæðin eru ekki eitthvað sem þekkist annars staðar. Fólk gerir ákveðnar væntingar til svona hluta. Það að vera með eitthvað sem ekki þekkist annars staðar getur verið svolítið áhættusamt og gæti orðið til þess að við verðum af góðri fjárfestingu eða góðu starfsfólki.