Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld.

432. mál
[21:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að það sem hv. þingmaður nefnir sé eitthvað sem við þurfum almennt að gera í öllum okkar málum, að rýna það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur og taka það upp sem vel er gert og bæta eftir því sem við á. En þetta er svo sannarlega gert og þetta fyrirkomulag sem hér um ræðir þekkist vel erlendis og það er sérstaklega tekið á því. Ég held að við séum að móta mjög skýra umgjörð í kringum þessa kaupréttarsamninga til handa sprotafyrirtækjum. Það er sérstaklega tekið fram, eins og ég kom inn á í fyrra svari mínu, að þetta mun sæta reglulegri endurskoðun og við erum stöðugt að rýna það hvað er að gerast á Norðurlöndunum og í öðrum löndum hér í kringum okkur, eins og hv. þingmaður nefndi reyndar. En ég held að það sem fram kom í hans máli hér áðan tengist líka öðrum þáttum, t.d. stuðningi til erlendra sérfræðinga sem við erum að fá hingað og hvernig við stöndum að þeim málum í samanburði við löndin í kringum okkur. Ég held að þessi heildarumgjörð sem hér um ræðir og þetta ákvæði sem hér er til umræðu og önnur atriði sem tengjast stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki þurfi að vera í reglulegri endurskoðun.