136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:38]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki sé ofsögum sagt að þetta sé ein dapurlegasta ræða sem flutt hefur verið á þessu löggjafarþingi það sem af er. Mér er til efs að þessi ræða hv. þingmanns verði toppuð.

Hv. þingmaður fór í gegnum 18 tillögur sem við framsóknarmenn höfum lagt fram og unnar voru í margar vikur af hagfræðingum, stærðfræðingum, viðskiptafræðingum og lögfræðingum. Hv. þingmanni tókst á 10 eða 15 mínútum að rakka niður hverja einustu tillögu án þess að fara mikið yfir það um hvað hver tillaga er efnislega. Hv. þingmaður talar um að þetta sé bull og þetta sé þvæla og ég mótmæli þessum málflutningi hv. þingmanns harðlega. Þetta er líka móðgun við það ágæta fólk sem vann hörðum höndum að því að móta tillögur til að koma til móts við bráðavanda heimila og fyrirtækja. Ég hef einfaldlega ekki tíma í tveggja mínútna löngu andsvari til að leiðrétta allar þær staðreyndavillur sem komu fram í arfavitlausri ræðu hv. þingmanns.

Hv. þingmaður talaði um og sagði að það væri sérstakur samráðsvettvangur í gangi hjá útflutningsaðilum og atvinnulífinu. Við sendum fulltrúa til að ræða við fulltrúa þessara fyrirtækja sem bentu akkúrat á að það þyrfti meira samráð á milli ríkisins og þeirra, sérstaklega á þessum erfiðu tímum, og við leggjum til að því verði komið á.

Hv. þingmaður gagnrýnir líka að við viljum efla rannsóknir og þróun og hann spyr hvort sé ekki verið að gera það. Hv. þingmaður hefði kannski þurft að kynna sér hvað við leggjum til hér, en við leggjum til sérstakan skattafslátt eða ívilnanir fyrir þann geira. Það er ekki verið að leggja það til í dag. Ég bið hv. þingmann og reyndar þingmenn Frjálslynda flokksins, sem hafa talað í þessari umræðu, að gera svo lítið (Forseti hringir.) að kynna sér a.m.k. þá þingsályktunartillögu sem við ræðum hér.