136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:04]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Færustu sérfræðingar hjálpuðu framsóknarmönnunum við að semja þessa þingsályktunartillögu. Höfum við ekki haft færa og hámenntaða sérfræðinga, hagfræðinga og lögfræðinga og alls konar fræðinga, til ráðgjafar í efnahagsmálum síðustu ára? Hver er árangurinn? Gjaldþrota þjóð, gjaldþrota þjóðfélag. Ég veit ekki hvað menn eru að vitna í og ef maður lendir í því að hitta tvo fræðinga eru þeir venjulega hvor á sinni skoðuninni. (BJJ: Hvað vill þingmaðurinn?) Það er nú það sem blasir við. Ég minni á orð eins fyrrverandi forsætisráðherra, Ólafs Thors: Guð hjálpi þjóðinni þegar fræðingarnir fara að stjórna öllu. Það eru kannski orð að sönnu. (VS: Góðir í bland.) Þeir geta verið ágætir í bland, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir segir. Auðvitað á að nota þá af skynsemi og fá hjá þeim ráð en oftast þarf að fá ráð frá fleiri en einum til að átta sig á því hvað er eðlilegt að gera.

Ég kem enn og aftur að þessari ágætu þingsályktunartillögu sem er ekki betri en það að hægt er að skjóta niður hvert einasta atriði af 18 í henni sem segir að þetta er ómerkilegt plagg, sýndarmennskuplagg til að reyna að plata fólk til stuðnings við Framsóknarflokkinn. Þetta er plagg sem engin not eru af og það vantar skýringar á hvað þetta kostar, það vantar að vita hver á að borga brúsann og hvernig.