136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:19]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir góða ræðu þar sem hann kom inn á velflestar þær tillögur sem Framsóknarflokkurinn leggur til og tók vel í þær. Væntanlega mun málið ganga til nefndar þar sem það fær efnislega umfjöllun og vonandi náum við að koma einhverjum af tillögum okkar til framkvæmda.

Margt áhugavert kom fram hjá hæstv. ráðherra, m.a. að hann eigi von á lækkun á stýrivöxtum á fimmtudag og hann opnar líka á það, sem ég tek mjög vel í, að við komum á fót sérstökum útflutningsábyrgðasjóði til að koma til móts við atvinnugreinar sem eru í gjaldeyrisskapandi starfsemi sem skapa þjóðarbúinu gríðarlega mikla fjármuni og glíma við mikla erfiðleika.

Hæstv. forseti. Af því að hæstv. ráðherra kom inn á þá 20% leið sem við framsóknarmenn höfum mælt fyrir og telur að hún kosti um 1.200 milljarða vil ég minna hæstv. ráðherra á það að nýju bankarnir munu fá, samkvæmt því sem formenn skilanefnda hafa sagt, lánasöfn gömlu bankanna með verulegum afslætti, 50%, og efnahagsreikningar gömlu bankanna voru 6.000 milljarðar og þeir færast þá væntanlega niður í 3.000 milljarða. 20% niðurfærsla af 3.000 milljörðum eru 600 milljarðar en ekki 1.200. Ég mundi því vilja heyra frá hæstv. ráðherra hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér, verði af þessari niðurfærslu.

Í annan stað spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji að það muni ekki taka langan tíma, líkt og hæstv. forsætisráðherra hefur talað fyrir, að greiðslumeta flestöll heimili í landinu og flestöll fyrirtæki í landinu, og hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að sá tími sem það tekur geti leitt til þess að þegar brugðist verður við vandanum, trúlega á komandi hausti eða á næsta ári, verði hann orðinn svo mikill að hann verði jafnvel óyfirstíganlegur.