138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem hefur skilað sínu umfangsmikla verki. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem að því verki stóðu. Ég held að það hafi verið afskaplega skynsamlegt að við fórum í þetta. Er ég þá sérstaklega að vísa í frumkvæði þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, og þáverandi forseta þingsins, Sturlu Böðvarssonar, sem höfðu forgöngu um það að setja þetta mál í þann farveg sem raun ber vitni. Sem betur fer náðist góð samstaða um það meðal allra flokka á Alþingi og það ber að þakka.

Það sem mér finnst vera gott við þessa skýrslu er að hér er komið gríðarlega mikið magn af upplýsingum, sett fram á skiljanlegan og góðan hátt, og ég tel að þetta geti verið grunnur að þeirri uppbyggingu sem þjóðin er nú að fara í. Ýmislegt sem verið hefur í gangi í munnmælasögum ætti að hreinsast að því leytinu til að allt liggur þetta fyrir. Þetta er allt komið fram skriflegt í opinberum gögnum. Ef eitthvað er rangt þar, sem örugglega er, því að það er útilokað að þetta stóra verk sé gallalaust, þá fá menn alla vega tækifæri til að leiðrétta það.

Eðli málsins samkvæmt er skýrslan ekki gallalaus, þó það nú væri. Við ættum kannski að skoða einn þátt en það er aðkoma erlendra aðila. Þegar við horfum á þessa veislu sem var þá var hún ekki gerleg nema vegna þess að erlendir aðilar lánuðu íslenskum fjármálastofnunum og fleirum ótæpilega. Það er um margt lítt skiljanlegt hvernig það gekk jafnlengi og raun ber vitni. Ég á líka erfitt með að skilja af hverju erlendu matsfyrirtækin höguðu sér með þeim hætti sem þau gerðu. Mér finnst það algjörlega furðulegt. Er kerfi þeirra gjörsamlega ónýtt? Er ekkert að marka þessi erlendu matsfyrirtæki? Eða hvaða skýringar liggja þarna á bak við?

Við vitum hins vegar og það kom t.d. fram í viðskiptanefnd — núverandi seðlabankastjóri útskýrði það — að um er að ræða kerfislægan vanda sem allar þjóðir glíma við og menn hafa ekki getað dregið nógu vel upp. Það á örugglega við hvað þennan þátt varðar en það getur ekki skýrt alla myndina.

Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem sagt hefur verið um vonbrigði með þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Mér fannst hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson lýsa þessu ágætlega þegar hann talaði um að eigendur hefðu notað bankana eins og prívatsparibauka. Það sem kemur mér á óvart er hve mikil skammtímasjónarmið virðast hafa verið þar á ferðinni og þessi mikla áhættusækni og firring sem bæði kom fram í alls kyns gjörðum hjá fólki sem kom að þessu. Ekki síður kom hún á óvart þessi trú manna á að einhvern veginn mundi þetta alltaf bjargast og hvernig menn voru að reyna að ýta vandanum á undan sér án þess að taka á honum.

Við hv. þingmenn verðum hins vegar, virðulegi forseti, að líta í eigin barm. Við hljótum að spyrja: Hvaða mistök gerðum við? Það er alveg ljóst að við gerðum mistök. Mér fannst svolítið skrýtið að hlusta á margar ræður í gær — menn héldu því fram að þeir, og flokkar þeirra, hefðu alltaf sagt þetta og vitað þetta. Það stenst enga skoðun.

Að mínu mati er það tvennt sem stendur upp úr, tvennt sem okkur vantar — þetta er mjög einfalt en samt flókið. Okkur vantar annars vegar gagnrýna hugsun og hins vegar málefnalega umræðu. Umræðan á Íslandi er iðulega mjög persónugerð. Engum er vorkunn, hvort sem hann fer á þing eða í aðrar stöður, að persóna hans verði í umræðunni en umræðan er allt of bundin við persónur. Menn eru alltaf með hinum og þessum í liði og það hefur skaðað alveg gríðarlega hér á Íslandi. Þegar menn lesa skýrsluna með það í huga sjá menn að það á við alls staðar. Við erum svo fá að við megum svo illa við þessu.

Gagnrýnin hugsun, okkur vantaði hana. Það á við um okkur sjálfstæðismenn sem berum ábyrgð, við göngumst við henni og biðjumst afsökunar. Við höfum gert það áður og munum gera það áfram, og við munum nota þetta plagg til þess að læra af því. Það vantaði hjá okkur gagnrýna hugsun, við tókum ýmislegu sem gefnu. Við töldum að ýmis kerfi og skipulag sem komið var á væri þess eðlis að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því. Það var öðru nær. Okkur vantaði alvöruumræðu, og þar gagnrýni ég peningamálastefnuna.

Einkavæðing bankanna er eitthvað sem við allt í einu, ja, hvað skal segja? — við héldum okkur ekki við það sem við lögðum upp með, og samþykktir okkar sögðu, um dreifða eignaraðild. Það var aldrei nein almennileg umræða tekin um það af hverju það var. En allt í einu stóðum við uppi með slíkt og þó að það eitt og sér skýri ekki allt var það óafsakanlegt.

Ríkisfjármálin, við áttum að halda okkur miklu harðar við sjónarmið okkar þar. Sannarlega vorum við eini stjórnmálaflokkurinn sem var með aðhald þar og allir sem hafa fylgst með þinginu vita af því. En við áttum hins vegar að halda okkur betur við okkar sjónarmið.

Við gáfumst t.d. upp í umræðum í borginni, um skuldsetningu þar, og tókum því miður rökum aðila sem sögðu að þetta væri svo leiðinleg umræða. Ég segi nú um sjálfan mig, maður var eins og hrópandinn í eyðimörkinni og fékk hvorki stuðning frá fjölmiðlum né akademíunni. Þetta voru dýrkeypt mistök, virðulegi forseti. Það sama má segja um hina flokkana. Ég held að það sé hollt að skoða Borgarnesræðu fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar. Ég held að hún hafi endurspeglað ágætlega tíðarandann sem þá var. Vandinn er þessi hjarðhegðun sem er yfir alla línuna. Þegar kom að Íbúðalánasjóði og þeim breytingum sem þar voru gerðar vildu bæði Samfylkingin og Vinstri grænir og aðrir flokkar á þingi ganga enn lengra en stjórnarflokkarnir fóru því miður þá.

Vinstri grænir geta ekki sagt að þeir hafi verið með fullkomlega hreinan skjöld í þessu. Þeir voru með öfluga menn í forustu fyrir helstu fjármálastofnanir landsins, eins og t.d. lífeyrissjóðina, stjórnir bankanna. Þegar kom að því sem við hefðum átt að taka á, fjölmiðlalögunum, hvernig brást þingið við þá? Við áttum að standa fast fyrir þar.

Virðulegi forseti. Það er margt sem hægt væri að fara yfir í þessari örstuttu ræðu en hún er að verða búin — mér fannst hún rétt vera að byrja því að það er svo margt sem maður getur sagt í þessari umræðu. En ég hlýt að spyrja: Höfum við lært eitthvað af þessu? Ef við skoðum síðustu daga í þinginu, er þetta að koma hjá okkur? Í síðustu viku hótar ráðherra að áminna forstöðumann ríkisstofnunar — mann sem m.a. er getið um í þessari skýrslu. Hann þykir einstaklega samviskusamur og heiðarlegur og það á að áminna hann fyrir nákvæmlega það. Ég bað um fund í heilbrigðisnefnd, virðulegi forseti, og ég vonast til þess að sá fundur verði haldinn, það hefur ekki enn þá orðið. En það vakti athygli mína þegar ég sá hvernig akademían brást við þessu, ég hvet menn til að skoða hvað hún sagði um þetta, hvort það var sérstaklega faglegt.

Virðulegi forseti. Við báðum hér, og ég er búinn að biðja um það frá áramótum, um upplýsingar um eignarhald bankanna. Við vorum fyrst núna að fá svar frá bönkunum sem er hreinn og klár útúrsnúningur. Ætlum við ekki, þingið, að fara fram á að fá þessar sjálfsögðu upplýsingar sem við erum búin að biðja um frá áramótum?

Virðulegi forseti. Ég er 1. flutningsmaður máls sem snýr að því að rannsaka hvað gerst hefur í bönkunum frá hruninu og fram að síðustu áramótum. Það mun reyna á okkur núna, virðulegi forseti, hvort við munum fara í það verkefni. Það mun líka reyna á okkur hvernig okkur mun ganga að hafa aðhald með framkvæmdarvaldinu. Það er ekki sjálfsagt og eðlilegt að einn ráðherra líti á þessa umræðu sem morfískeppni (Forseti hringir.) og sjái enga ástæðu til að svara spurningum okkar.

Virðulegur forseti. Þetta snýr að því að nota þessa skýrslu til að læra af henni. Við þurfum að gera upp mál og þeir sem bera ábyrgð þurfa að axla þá ábyrgð. Ef við lítum (Forseti hringir.) á stöðuna eins og hún er í dag held ég því miður að við séum ekki að læra jafnhratt og við ættum að gera.