138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:29]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil sérstaklega fagna þeim orðum hæstv. umhverfisráðherra sem lúta að Stjórnarráðinu og góðri stjórnsýslu. Það er kannski helst sá hluti rannsóknarskýrslunnar sem ég hef gefið mér tíma til að kynna mér og lesa almennilega og það er sá hluti sem gefur mér líka helst vonir um að í þessari skýrslu séu á hinu boltalega markaðsmáli gríðarleg sóknarfæri til að stokka upp íslenska stjórnkerfið, búa því nýjan ramma, nýja löggjöf og í raun regluverk, að koma á svokallaðri stjórnfestu, formfestu og lagafestu hér á landi.

Þess vegna fagna ég því og ég vil, eins og ég hef reyndar áður gert hér í þessum sal, brýna hæstv. umhverfisráðherra sem situr í ríkisstjórn Íslands og vinnur að samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri grænna um að fækka ráðuneytum í Stjórnarráðinu, stækka þau og styrkja og vinna að því sem einn maður að gera ríkisstjórnina að slíku stjórntæki að þar séu allir upplýstir, þar taki menn helst sameiginlegar ákvarðanir en séu ekki eins og tíu eða tólf smábátasjómenn sem hittist stöku sinnum í kaffi.