138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra um að æskilegast hefði verið og beinlínis nauðsynlegt að einkavæða þessa banka í þeim anda að dreifð eignaraðild yrði höfð til hliðsjónar. Við þyrftum kannski að læra af því hvernig mál þróuðust í framhaldi af því og hvernig m.a. eignarhaldi núverandi banka á markaði er háttað. Við vitum ekkert um hvort þar er um dreifða eignaraðild að ræða eða hvort einn eigandi verður þar allsráðandi. Þetta er spurning sem við þurfum að spyrja okkur og í raun og veru svara. Hvernig samfélag við viljum byggja upp til framtíðar? Ég hef spurt mig að því þegar maður horfir á samþjöppun í matvörugeiranum hvort það sé hollt ástand sem hefur verið á þeim markaði, hvort ekki þyrfti að vera dreifð eignaraðild í meira mæli á þeim markaði.

Við þurfum að velta fyrir okkur mörgum svona álitamálum í dag um það hvernig samfélag við viljum skapa. Mig langar þess vegna, í ljósi þess að við höfum einungis fengið tvo daga til að lesa yfir skýrsluna og einungis tíu mínútur til að ræða þetta umfangsmikla mál úr ræðupúlti Alþingis, að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann er mér ekki sammála um að það sé nauðsynlegt að við fáum lengri og meiri tíma, eftir að hafa gaumgæft skýrsluna, til að ræða hana á Alþingi fyrir opnum tjöldum, og ræða í framhaldinu hugmyndir okkar um það hvernig við viljum byggja upp Ísland í framtíðinni og hvað við getum lært af því tímamótariti sem þessi skýrsla er.