138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ákvað að tala tæpitungulaust um það í ræðu minni hvernig atburðir síðustu ára hafa þróast og hafði allt sviðið undir í þeim efnum. Mér til mikilla vonbrigða horfir hæstv. utanríkisráðherra einungis á árin 2003–2007 í andsvörum sínum. Ég minni á að þrjár ríkisstjórnir hafa starfað frá því að Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn og hæstv. utanríkisráðherra hefur setið í þeim öllum. Það er mikilvægt að allir horfi í eigin barm í þessum málum. Ég vil benda hæstv. ráðherra á það að við vitum ekki hverjir eiga bankana í dag. Við vitum ekki hvort þeir eru í dreifðri eignaraðild og við vitum ekki hvort jafnvel þeir sem stóðu að og stuðluðu að hruninu eigi einfaldlega bankana. Það er náttúrlega þessi skortur á upplýsingum sem skekur samfélagið og skapar tortryggni. Við eigum að leggjast öll á eitt að komast að því hverjir eiga þessa stóru banka í dag. Það er hluti af því uppgjöri og þeirri framtíðarsýn sem við þurfum að stuðla að á vettvangi þingsins.

Ég hvet alla sem hlut eiga að máli — ef hæstv. utanríkisráðherra tók ekki eftir því í ræðu minni minntist ég aldrei á það að eitthvað væri einhverjum sérstökum að kenna — ef við viljum hafa orðræðuna með þeim hætti að ég fari að kenna Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum um ákveðna hluti og Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn fari að kenna Framsóknarflokknum um ákveðna hluti komumst við ekki langt í þessari umræðu, við festumst í skotgröfum. Ég er að reyna að gera heiðarlega tilraun til þess að við náum saman á þinginu um að vinna úr þessum viðamiklu gögnum sem blasa við okkur og við náum saman um einhverja framtíðarsýn, hvernig við ætlum að byggja land okkar til framtíðar, (Forseti hringir.) því að við þurfum öll á því að halda í dag að til sé einhver framtíðarsýn, að við sjáum hvert við stefnum og að það sé ljós handan við hornið.