139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

lækkun húshitunarkostnaðar og jöfnun flutningskostnaðar.

[10:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil minna á að þegar gerðar voru breytingar á olíugjaldi á miðju ári 2009 voru sérstaklega gerðar ráðstafanir til að þær hækkanir leiddu ekki til hækkaðs flutningskostnaðar. Þá var aukinn afsláttur í þungaskatti hjá flutningsaðilum þannig að sú breyting kom út á sléttu og aðeins rúmlega það. Að því leyti til hefur þessi ríkisstjórn þegar sýnt það í verki að hún vill leita leiða til að verjast því að flutningskostnaður hækki, t.d. í gegnum skattbreytingar eða vegna þess að eldsneytisverð hækki. (Gripið fram í: … nóg …)

Nú hefur olíuverð hins vegar hækkað tilfinnanlega mikið og aftur er dísilolían orðin dýrari en bensín. Hún gengur inn í atvinnurekstur og flutninga með allt öðrum hætti en bensínið. Það er ekkert launungarmál að núna eru mótvægisaðgerðir sérstaklega til skoðunar til að verjast því að hækkandi olíuverð (Forseti hringir.) leiði til enn hærri flutningskostnaðar. Tillögur um það munu líta dagsins ljós innan skamms. (Gripið fram í.)