141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla. Þar eru lagðar til breytingu á lögum um opinbera háskóla þannig að þau lög verði samræmd á milli skóla. Þá er einnig lagt til að lög um búnaðarfræðslu falli brott sem og að samstarf opinberra háskóla verði lögfest með svokölluðu háskólaneti sem ég tel mikið framfaraskref. Við erum því að ræða ansi vítt um málefni háskólanna í landinu. Það er mjög mikilvæg umræða að heyra hvaða framtíðarsýn menn og flokkar hafa hvað varðar háskólamenntun í landinu og hvað varðar menntamálin heildstætt. Umræðan hefur þróast á þann hátt að menn hafa lagt ýmislegt út frá þessu máli sem eðlilegt er.

Fyrst af öllu vil ég aðeins ræða um háskólanetið og samstarf háskóla. Heilmikill slagur var tekinn um það á níunda áratug síðustu aldar að setja á fót sjálfstæðan háskóla á Akureyri. Það var ein stærsta byggðaaðgerð seinni tíma að setja Háskólann á Akureyri á fót en hann hefur skilað af sér þúsundum háskólamenntaðra einstaklinga, hefur veitt fólki vítt og breitt um landið tækifæri til að mennta sig á háskólastigi í sinni heimabyggð í gegnum nútímatækni. Fólk hefur þá ekki þurft að flytjast að heiman heldur hefur getað stundað fjarnám vítt og breitt um landið sem hefur skilað miklu fyrir viðkomandi byggðarlög. Háskólinn á Akureyri er trúlega best heppnaða dæmi um byggðaaðgerð hér á landi og hefur vafalaust skilað okkur gríðarlegum árangri í byggðamálum þar sem gera má mun betur.

Þess vegna hef ég meðal annars ítrekað á þeim tíu árum sem ég hef setið hér á Alþingi lagt fram fyrirspurnir til menntamálaráðherra, sem hafa verið nokkrir á umræddu tímabili, um sjálfstæði Háskólans á Akureyri. Það hefur verið umræða öðru hvoru, hún hefur skotið upp kollinum, um að sameina háskóla hér á landi og fella þá Háskólann á Akureyri undir Háskóla Íslands. Framsóknarflokkurinn, og ég þar með talinn, hefur lagst hart gegn slíkum hugmyndum vegna þess að reynslan hefur kennt okkur að þegar verið er að draga saman í opinberum framlögum til stofnana á suðvesturhorni landsins, stofnana sem eru með útstöðvar vítt og breitt um landið, er niðurskurðarhnífnum yfirleitt beitt fyrst á þær starfsstöðvar sem eru fjærst höfuðstöðvunum og við höfum mörg dæmi um slíkt. Ætli menn sér að flytja Háskólann á Akureyri undir Háskóla Íslands yrði þróunin einfaldlega sú, að minnsta kosti væri hætt við því, að niðurskurðarhnífnum yrði fyrst beitt gagnvart þjónustunni fyrir norðan, gagnvart þjónustunni á landsbyggðinni, en ég tel að slíkt eigum við að forðast. Sjálfstæði Háskólans á Akureyri er því gríðarlega mikilvægt.

Það hefur líka sýnt sig að Háskólinn á Akureyri hefur útskrifað gríðarlega mikið af mjög hæfu fólki, ekki síst hjúkrunarfræðingum. Kannanir hafa sýnt að þeir nemar sem ljúka námi frá Háskólanum á Akureyri eru mun líklegri til að staðsetja sig í framtíðinni á landsbyggðinni. Það er það sem landsbyggðina hefur skort á undangengnum árum og mun þarfnast á komandi árum, þ.e. að háskólamenntað fólk setjist þar að í auknum mæli.

Ég átti á dögunum fund, ásamt öðrum oddvitum flokka sem sæti eiga á Alþingi fyrir Norðausturkjördæmi, með bæjarstjóranum á Akureyri og fulltrúum Fjórðungssjúkrahússins þar. Þar var rætt á mjög víðum grunni um málefni sjúkrahússins og það tengist starfsemi Háskólans á Akureyri. Þar kom fram hversu gríðarlega mikilvægt það er að menn geti stundað nám, til að mynda í hjúkrun, við Háskólann á Akureyri. Það hefur sýnt sig að þeir einstaklingar sem stunda nám við þann háskóla eru mun líklegri til að sinna heilbrigðisþjónustu á Akureyri þegar fram líða stundir.

Þá veltir maður fyrir sér læknisfræðinni, þ.e. hvort ekki megi fara að stunda nútímalegri kennslu á því sviði, þ.e. að opna á fjarnám, alla vega í ákveðnum fögum, í læknisfræði við Háskólann á Akureyri. Það hefur komið fram og það er áhyggjuefni að á næstu árum verður mun erfiðara að manna heilbrigðisþjónustu í landinu og ekki síst á landsbyggðinni. Margir læknar á landsbyggðinni eru komnir á efri ár og stutt í að þeir ljúki störfum. Það verður að hafa það til hliðsjónar að búseta, þar sem menn stunda nám, skiptir gríðarlega miklu máli til framtíðar litið, þegar menn ákveða síðar hvar þeir vilja búa. Margir hafa til dæmis kynnst því á Akureyri, fólk sem stundar þar nám í heilbrigðisfræðum, að það felast mikil lífsgæði í því að búa í Eyjafirði á Akureyri eða jafnvel inni í Eyjafjarðarsveit eða á Dalvík og stunda sína vinnu þar, það svæði hefur upp á svo margt að bjóða.

Það er einfaldlega þannig að á þessum árum eftir að framhaldsskólanum lýkur, á aldrinum 20–25 ára, þegar fólk er jafnvel að setja á stofn fjölskyldu, þá skiptir máli hvar menn stunda nám. Í tilfelli Háskólans á Akureyri hefur það sýnt sig að fólk festir rætur í viðkomandi sveitarfélögum, hvort sem það fer þá að stunda nám sitt á Akureyri eða í gegnum fjarnámið vítt og breitt um landið. Ég legg því mikla áherslu á að menn standi vörð um Háskólann á Akureyri og efli hann til lengri tíma litið. Ég tel að engin byggðaaðgerð hafi verið jafnmarkviss og uppbygging Háskólans á Akureyri. Það sama má segja um landbúnaðarháskólana sem þarf að efla til mikilla muna

Þegar við ræðum um háskólastigið og hvernig það hefur sinnt þörfum atvinnulífsins þá hefur komið fram að nokkuð hefur skort á það að íslenskir háskólar hafi náð að sinna þörfum íslensks atvinnulífs. Það er eitthvað sem ný ríkisstjórn þarf að beita sér fyrir að breyta. Við þurfum að efla nám sem tengist hugverkaiðnaði, tengist fyrirtækjum eins og CCP, Marel og Actavis. Þessi fyrirtæki kalla á mikið af mjög menntuðu starfsfólki.

Við í Framsóknarflokknum unnum skýrslu — sett var á fót sérstök atvinnumálanefnd Framsóknarflokksins sem fór yfir tækifæri Íslands og íslensks atvinnulífs í náinni framtíð — og í henni kom fram að við eigum gríðarlega mikil tækifæri. Eftir að þessi starfshópur flokksins, sem ég veitti forstöðu, hafði rætt við fjöldann allan af aðilum í menntakerfinu og í atvinnulífinu kom í ljós að íslenska menntakerfið hefur ekki verið nægilega skilvirkt þegar kemur að þörfum rísandi fyrirtækja, eins og þeirra sem ég nefndi áðan; Actavis, Marel, CCP, fyrir háskólamenntað fólk sem mundi starfa innan þeirra.

Í einni af fjölmörgum tillögum sem Framsóknarflokkurinn samþykkti og birti í skýrslu sem heitir Ísland í vonanna birtu, í kafla 3 um vinnumarkaðsaðgerðir, segir, með leyfi forseta:

„Mikil fjárfesting í menntakerfinu hér á landi síðustu árin á að geta veitt atvinnulausum tækifæri til náms við sitt hæfi ef rétt er að málum staðið. Eftir að hafa skoðað leiðir sem aðrar þjóðir hafa fetað í kjölfar efnahagserfiðleika þá er einkum horft til reynslu Finna. Í byrjun tíunda áratugar tuttugustu aldar jókst atvinnuleysi gífurlega í Finnlandi í kjölfar hruns Sovétríkjanna. Við því var brugðist á árunum 1995–1999 af hendi stjórnvalda með því að leggja áherslu á aukna menntun og þjálfun atvinnulausra í tæknigreinum. Áætlunin gerði ráð fyrir að heildaratvinnuleysi í Finnlandi á þessum árum minnkaði um helming og að verulega mundi draga úr langtímaatvinnuleysi og atvinnuleysi ungs fólks. Framboð námsúrræða var aukið miðað við þarfir vinnumarkaðarins á þeim tíma. Þetta hefur leitt til mikillar sóknar Finna í tæknigreinum.“

Í skýrslu nefndarinnar segir um markmið, með leyfi forseta:

„Raunhæft er að setja sem markmið að á árinu 2012 muni 2.000 einstaklingar, til viðbótar þeim 1.500 vinnumarkaðsúrræðum sem eru til staðar í dag, vera komnir í nám á framhalds- og háskólastigi eða í starfstengt nám í tæknigreinum og skapandi greinum. Þróa þarf þessa námsleið í góðri samvinnu stjórnvalda og atvinnulífsins. Afar brýnt er að fjölga þjálfunartækifærum fyrir atvinnulausa inni í fyrirtækjunum. Mikilvægt er að atvinnuleysisbætur fylgi einstaklingum er fara í starfsþjálfun til fyrirtækja og að atvinnurekandi bæti við fjármagni þannig að launin verði yfir lágmarkslaunum. Er þetta þá hvatning fyrir atvinnurekendur til að taka þátt í átakinu og fyrir einstaklinginn til að sækjast eftir því að komast í slík starfsúrræði.“

Í þessum tillögum var sérstaklega horft til hinna skapandi greina og þeirrar staðreyndar að háskólastigið hefur á undanförnum árum ekki náð að sinna þörfum fyrirtækja í leikjaiðnaði, í líftækni, í hönnun, í fata- og listiðnaði, í heilbrigðistækni, í orku- og umhverfistækni, í tónlistar-, kvikmynda- og afþreyingariðnaði, í véla- og rafeindatækni og fleira mætti nefna. Þetta eru tækifæri sem bíða nýrrar ríkisstjórnar, þ.e. að virkja þann kraft sem getur búið í íslensku menntakerfi í þágu atvinnulífsins með það að markmiði að draga úr atvinnuleysi hér á landi.

Talandi um hugverkaiðnaðinn, sem hefur verið sá geiri atvinnulífsins sem hefur vaxið hvað mest á undangengnum árum, þá er mjög mikilvægt að stjórnvöld hafi skilning á þörfum þessa ört vaxandi atvinnulífs. Ég hef áður nefnt CCP, Marel, Össur og Actavis. Það er ekkert sjálfgefið að þessi fyrirtæki séu með svo umfangsmikla starfsemi hér á landi. Við getum líka nefnt Latabæ, Bláa lónið og fleira í því samhengi. Ef menntakerfið sinnir ekki þörfum þessa ört vaxandi fyrirtækjaklasa er hætt við því að fyrirtækin sjái hagsmunum sínum betur borgið með því að færa starfsemi sína úr landi.

Eftir að hafa skoðað starfsumhverfi þessara fyrirtækja, hvernig menntakerfið hefur staðið að þjónustu sinni við að útskrifa hæft starfsfólk fyrir þau, en ekki síst eftir að hafa horft á starfsumhverfi hinna skapandi greina almennt og þessara ört stækkandi fyrirtækja, hefur komið í ljós að við erum til að mynda langt á eftir Kanadamönnum þegar kemur að því að hafa hagstætt skattumhverfi fyrir þessi glæsilegu fyrirtæki sem veita mörgu ungu og vel menntuðu fólki hér á landi atvinnu. Við verðum einfaldlega, og það er lagt til í þessari skýrslu, að bregðast við því með því að bjóða upp á hagstæðara skattumhverfi.

Í tillögum Framsóknarflokksins er meðal annars lagt til að stuðningi við nýsköpun verði breytt á þann veg að veittur verði afsláttur á staðgreiðslu skatta. Þessu höfum við því miður ekki náð fram hér í þinginu enda erum við í minni hluta og ríkisstjórnin hefur ekki viljað taka tillögur okkar í atvinnu- og menntamálum til afgreiðslu. Einnig leggjum við til að erlendir sérfræðingar sem starfa í tölvuleikjaframleiðslu hjá íslenskum fyrirtækjum fái tveggja ára skattfrelsi. Þetta leggjum við til vegna þess að komið hefur í ljós gríðarlega mikil þörf, og miklir erfiðleikar hjá fyrirtæki eins og CCP, fyrir að fá mjög færa sérfræðinga á því sviði hingað til lands til að starfa hjá fyrirtækinu. Af hverju er ég að nefna það hér? Ég nefni það hér vegna þess að í áliti meiri hluta nefndarinnar er því velt upp hvernig við getum skapað aukna viðveru menntafólks á Íslandi eftir útskrift til að koma í veg fyrir að það flytji úr landi. Við höfum því miður séð það í kjölfar hrunsins að margt af okkar menntaðasta fólki hefur leitað úr landi. Í álitinu segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Var lagt til við nefndina að allur beinn kostnaður sem hlytist af námi Íslendinga hérlendis og erlendis yrði gerður frádráttarbær frá tekjuskattsstofni, í tvö til þrjú framtalsár eftir námslok. Var þeim sjónarmiðum komið á framfæri að með því að gera vissa kostnaðarliði í námi stúdenta frádráttarbæra frá skattstofni mundi hið opinbera og skattkerfið stuðla að því að námsmenn skili sér á íslenskan vinnumarkað að námi loknu. Skattafslátturinn mundi laða sérfræðimenntaða Íslendinga aftur til landsins. Þá var nefndinni kynnt að svipað kerfi væri þegar til staðar, til dæmis í Bandaríkjunum, Ástralíu, Þýskalandi og Nýja-Sjálandi.“

Mér finnst vert í framhaldinu að menn skoði þessar leiðir. Við höfum horft upp á það í allt of miklum mæli að þúsundir einstaklinga hafa horfið héðan af landi, tímabundið eða varanlega, til starfa annars staðar. Þar með hefur Ísland orðið fyrir því, eða ríkissjóður og sveitarfélög, að skatttekjur hafa minnkað og við höfum verið að missa mjög hæft fólk úr landi, meðal annars úr heilbrigðisgeiranum. Ég segi þetta þeim til hróss sem skrifa undir þetta nefndarálit, hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, Skúla Helgasyni, Þráni Bertelssyni, Ólafi Þór Gunnarssyni og Kristjáni L. Möller, ég vil hæla þeim fyrir þá framsýni að velta þessu hér upp.

Við framsóknarmenn ræddum það á síðasta flokksþingi að grípa yrði til einhverra aðgerða sem hvetja menntað fólk til að setjast að hér á landi. Við höfum séð að læknaskorturinn sem nú er við lýði er meðal annars til kominn vegna þess að hluti þeirra einstaklinga sem hafa farið út til náms, læknar, nýnemar, skilar sér ekki aftur heim eins og þeir gerðu fyrir hrun. Það er mun minni endurnýjun á læknum hér á landi, ungum læknum, og við þurfum einfaldlega að horfast í augu við þann raunveruleika.

Við sjáum hvað málefni háskólastigsins er mikilvægt og hvað það hefur mikið að segja. Við horfum upp á það að læknum hér á landi, sérstaklega á landsbyggðinni, mun því miður fækka á komandi árum vegna þess að margir af þeim eru komnir á efri ár. Við verðum því að hugsa í nýjum lausnum. Hvernig ætlum við að mæta þeirri þörf sem mun skapast, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins, fyrir menntað heilbrigðisstarfsfólk? Og við þurfum líka að horfa til þess að ungt fólk í dag, þ.e. ungir læknar, gerir allt aðrar kröfur til starfsumhverfis en menn gerðu fyrir 20–30 árum, meðal annars hvað það varðar að taka vaktir og fleira. Að öllu þessu þurfum við að huga í þessu samhengi.

Mér líka vel þær breytingar sem lagðar eru til í öllum meginatriðum en vil þó hnykkja á því að við þurfum að efla háskólastigið hér á landi, gera námið markvissara þannig að það sinni þörfum fyrirtækja eins og þeirra sem falla undir hinar skapandi greinar. Ég tel því að þetta mál sé í meginatriðum gott mál. Ég held að samstarf opinberra háskóla, aukið samstarf, muni skila okkur betra háskólasamfélagi hér á landi. Um leið legg ég áherslu á, eins og ég hef gert á undanförnum árum, sjálfstæði ákveðinna stofnana eins og Háskólans á Akureyri. Það er mjög mikilvægt að höfuðstöðvar Háskólans á Akureyri verði á Akureyri og því fjármagni sem kemur inn til þeirrar starfsemi verði stýrt frá Akureyri en ekki af suðvesturhorni landsins. Annars finnst mér mikilvægt að við ræðum frekar um málefni háskólanna og hefði gjarnan viljað fá lengri tíma til að fjalla um þetta frumvarp og þau mál sem tengjast háskólanámi hér á landi en verð tímans vegna að láta staðar numið að þessu sinni.