141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:47]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um þau markmið að efla þessa fræðslu og standa vörð um hana eins og hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. ráðherra landbúnaðarins hefur rakið. En mig langar til að árétta hvernig ég met þetta mál og kem að því, hafandi lesið nokkrar umsagnir og nefndarálitið. Mig langar, með leyfi frú forseta, að vitna í nefndarálitið þar sem stendur:

„Meiri hlutinn áréttar að skólinn hefur samkvæmt lögum um háskóla, nr. 63/2006, og reglum um viðurkenningu háskóla, nr. 1067/2006, verið viðurkenndur á tveimur fræðasviðum og undirflokkum þess, þ.e. á sviði búvísinda og náttúruvísinda. Undirflokkar þess eru búfræði, hestafræði, náttúru- og umhverfisvísindi, skógfræði, landgræðslufræði og umhverfisskipulag. Nefndin hefur fengið upplýsingar um að innan þessara sviða hefur skólinn fullt frelsi til að þróa áfram námsskipulag og námsframboð.“

Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi hefur hann ekki trú á að námi í þessum vísindum verði umbylt núna eða í náinni framtíð þannig að ég velti því fyrir mér hvort menn gangi kannski fulllangt í hræðslu sinni gagnvart þessum breytingum. Ég er sammála því að menn þurfa að ganga hægt um dyr í þessum efnum en mér finnst á öllu yfirbragði frumvarpsins að slík hræðsla sé hugsanlega óþörf.

Nú hef ég þann fyrirvara á að ég hef ekki setið fundi þessarar nefndar og ég hef náttúrlega ekki verið starfandi hæstv. landbúnaðarráðherra (JónG: Því miður, því miður.) og þykist vita að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafi heilmikla þekkingu á þessum málaflokki, en í fljótu bragði sýnist mér að hér sé um mál að ræða sem eigi að (Forseti hringir.) stuðla að meiri samþættingu og samræmingu innan háskólastigsins.