141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[11:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og tek auðvitað undir það sem hann nefnir um Hólaskóla, hann hefur ekki bara haft mikla þýðingu fyrir samfélagið í kring heldur landið í heild sinni. Við megum ekki gleyma því mikla og metnaðarfulla starfi sem hefur átt sér stað í sambandi við bleikjueldið, það er grunnurinn að því bleikjueldi sem við erum með hér á landi í dag og skaffar gríðarlegar útflutningstekjur fyrir þjóðina. (BJJ: Ég er nú hræddur um það.)

Hv. þingmaður kom aðeins inn á það í ræðu sinni hvernig staðið væri að framboði á námi, en það þarf auðvitað að hugsa og skoða. Það hefur vakið mikla furðu mína að núna á niðurskurðartímum skuli reiknilíkanið vera þannig, t.d. í framhaldsskólunum, að það sé hagkvæmara fyrir skólana að skera frá sér verknámið. Reiknilíkanið er vitlaust. Við vitum að það er ekki einhver kristalskúla uppi í menntamálaráðuneyti heldur mannanna verk og niðurstöðurnar ráðast af þeim forsendum sem eru gefnar, sem settar eru inn í líkanið. Það hefur líka komið fram mjög mikil gagnrýni á undanförnum árum frá forustumönnum atvinnulífsins um að ekki sé boðið upp á og byggt tryggilega undir það nám sem vöntun er á inn í atvinnulífið. Það er ekki sami taktur í menntuninni og þörf er á í atvinnulífinu. Það hefur meira að segja komið fram að þetta hafi staðið mörgum atvinnugreinum fyrir þrifum, þar sem eru miklir vaxtarbroddar, menntunina skorti til að þær geti vaxið enn meira. Mig langar að spyrja hv. þingmann um skoðun hans á þessu.

Eins vil ég spyrja hv. þingmann um það sem kemur fram í frumvarpinu og snýr að því að ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna kennslunnar í skólunum þó svo að þess sé getið að starfsmenntanámið, sem hefur ekki verið metið inn í reiknilíkanið, sé mjög dýrt nám. Samt er ekki gert ráð fyrir því að útgjöld skólanna aukist þótt frumvarpið verði samþykkt. Ég vil spyrja hv. þingmann hver skoðun hans er á því.