141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér, frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008, hefur nokkur meginmarkmið. Í fyrsta lagi kveður frumvarpið á um að allir opinberir háskólar búi við sama lagaumhverfi. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Hólaskóla — Háskólans á Hólum verði fellt undir lög um opinbera háskóla, og í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að lög um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, falli brott. Það eru sem sagt þrjú atriði sem frumvarpið kveður í á um, auk minni atriða sem ég ætla að nefna í ræðu minni á eftir, þ.e. að ein samræmd lög gildi um alla opinbera háskóla, þar með að Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli verði felldir undir þessi lög og að lög um búnaðarfræðslu verði felld brott.

Það kallar á að við ræðum aðeins stöðu háskólanna og hvernig þessi mál hafa verið að þróast á undanförnum árum. Þegar við berum okkur saman á háskólasviðinu við önnur lönd sem við jöfnum okkur gjarnan við þegar við kemur að málum eins og menntamálum og ýmsum slíkum framfaramálum, er það ljóst mál að sem hlutfall af heildaríbúafjölda er háskólamenntað fólk hér á landi allt of fátt. Hins vegar þegar við horfum á þessi mál yfir skemmri tíma og skoðum útskrifaða háskólanema þá hefur þessi þróun verið að breytast mjög ört, sem betur fer. Háskólamenntuðu fólki fer fjölgandi á Íslandi og er það jákvætt. Bent hefur verið á greinilegt samhengi milli menntunar, þekkingar, háskólastigs og hagvaxtar í ýmsum löndum. Við vitum það einfaldlega að í flóknum þjóðfélögum samtímans verðum við að byggja upp eins mikla, víðtæka og fjölbreytilega þekkingu á flestum sviðum samfélagsins til að geta tekist á við okkar flókna samtíma. Verkefni sem áður kölluðu á afmarkaða verkþekkingu eða tiltölulega litla formlega skólagöngu hafa þróast með þeim hætti að þau krefjast núna aukinnar þekkingar og oft og tíðum háskólamenntunar.

Ég tel að í raun sé orðið mjög úrelt að tala um þekkingariðnaðinn í landinu, eins og oft hefur verið gert, og svo annan iðnað, svo dæmi sé tekið. Það er í raun og veru allur iðnaður þekkingariðnaður sem nær máli í dag. Við sjáum t.d. bara stóriðjufyrirtækin, þau verða ekki rekin nema þau hafi á að skipa fólki með mikla og margbreytilega menntun og þekkingu. Það er í raun líka þekkingariðnaður. Stóriðjan er þekkingariðnaður og hún hefur einmitt verið uppspretta og tilefni til menntunar hjá fjölda fólks. Fólk fer í verkmenntun, fólk fer í verkfræðinám, fólk fer í alls konar tölvunám, fólk fer í alls konar nám af öðru tagi einfaldlega vegna þess að það m.a. veit að það getur átt von á starfi í stóriðjufyrirtækjum. Nákvæmlega sama á við um aðra atvinnugrein sem hefur oft ekki verið talinn þekkingariðnaður. Þar vísa ég t.d. til sjávarútvegsins sem er þó raunverulegur þekkingariðnaður í dag. Það er atvinnugrein sem heyr sína samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum við mjög erfiðar aðstæður. Þá dugir ekkert minna en að okkar besta fólk sé þar starfandi, annars verðum við undir. Sem betur fer höfum við séð að slíku fólki hefur fjölgað í atvinnugreininni, en það sem er þó kannski enn þá meira áberandi í tengslum við þessa tilteknu atvinnugrein, sjávarútveginn, er að skyldar greinar, tengdar greinar, greinar sem sprottið hafa af sjávarútveginum, sem menn hafa síðan kallað einu nafni sjávarútvegsklasann, byggja á margvíslegri þekkingu. Þess vegna er það svo mikilvægt fyrir okkur að við hyggjum vel að skipulagi háskólanáms okkar. Ef við tökum sjávarútveginn áfram sem dæmi þá hefur sú þróun haldið áfram mjög hratt á síðustu árum að fólki hefur fækkað sem starfar í þeirri atvinnugrein vegna tækniþróunarinnar. Það kallar aftur á annars konar starfsfólk til starfa. Þessi þróun mun valda því að þau byggðarlög sem t.d. byggja á sjávarútvegsstarfsemi standa frammi fyrir því að fólkinu þar fækkar vegna færri starfa.

Ég var á mjög athyglisverðri ráðstefnu á föstudaginn sem Samtök sjávarútvegssveitarfélaga efndu til þar sem þetta kom mjög skýrt fram hjá formanni þessara samtaka, Svanfríði Jónasdóttur, fyrrverandi hv. alþingismanni og núverandi bæjarstjóra á Dalvík. Hún rakti þróunina mjög glögglega. Á tiltölulega fáum árum fækkaði starfsfólki í hefðbundnum sjávarútvegi, fiskveiðum og vinnslu, um fimm þúsund, ekki vegna þess að aflinn hafi dregist svona mikið saman, hann hefur dregist saman í tilteknum tegundum eins og þorski en hefur aukist í öðrum tegundum, heldur fyrst og fremst vegna þess að fiskveiðiskipulagið okkar hefur gert það að verkum að við erum núna með færri skip og drögum þar með aflann að landi með ódýrari hætti. Sóknartengdur kostnaður minnkar og síðan hefur orðið mikil tækniþróun sem gerir það að verkum að afköstin í greininni eru margföld. Það sem er svo áhugavert í því sambandi, svo ég haldi aðeins áfram með það, er að það hefur ekki bara valdið því að fólkinu hefur fækkað heldur líka því að möguleikar okkar hafa aukist til að vinna afurðir inn á nýja markaði brjóta okkur þar leið, fá auknar tekjur t.d. með ferskri vinnslu á matvörum, fiski. Þeir möguleikar hafa skyndilega opnast sem ekki voru fyrir hendi áður vegna þess að við höfðum ekki þekkinguna um meðferð afla, við höfðum ekki möguleika á að flytja hann með ódýrari og skjótvirkari hætti, við höfðum ekki þekkinguna til að stuðla að því að geymslutíminn, líftími ferskra afurða yrði meiri og þar fram eftir götunum. Úr því að það á við í sjávarútvegi hlýtur það líka að eiga við á öllum sviðum og það á auðvitað líka mjög mikið við í landbúnaði.

Það frumvarp sem við ræðum hér snertir einmitt landbúnaðinn mjög mikið, ekki bara óbeint heldur líka beint því að alveg eins og ég nefndi í upphafi lúta tvö meginatriði, sem snúa að breytingu á þessum lögum, einmitt að því. Í fyrsta lagi er verið að fella starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Hólaskóla — Háskólans á Hólum undir lög um opinbera háskóla í stað þess að um námið þar gildi sérlög að einhverju leyti. Í því felst síðan að lög um búnaðarfræðslu verða afnumin, en þau verið hafa hryggjarstykkið í þessum skólum og má segja sem svo að þau hafi orðið til þess að þessir skólar voru settir á laggirnar upphaflega.

Það er að mínu mati ekki bara umhugsunarefni. Ég tel að það sé röng stefna. Þá er sagt: Bíddu nú við, þetta er hugsað sem einhvers konar rammalöggjöf utan um þessa skóla eins og aðra háskóla í landinu. Er nokkuð að því að um þessa skóla gildi bara almenn lög, eins og um aðra sem ætlað er að mennta fólk á háskólastigi fyrir þessar atvinnugreinar eins og fjöldamargar aðrar, og við látum síðan háskólunum eftir að ákveða það með hvaða hætti þeir skipuleggja þetta nám?

Í fyrsta lagi er því til að svara að gildandi lög um búnaðarfræðslu gera það ekki að verkum að námsefnið sé nákvæmlega sett niður í lagasetningunni í þessum greinum. Það er hlutur sem skólarnir þróa og aðlaga eftir því sem aðstæðurnar breytast. Við sjáum það t.d. ef við lesum námskrá Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, svo dæmi sé tekið, sem annast búnaðarfræðslu, að námsefnið þar er orðið mjög breytt frá því sem það var hér áður og fyrr, hvort sem við skoðum það til lengri eða skemmri tíma. Það hefur einfaldlega þróast í tímans rás eftir því sem kröfurnar og aðstæðurnar í samfélaginu hafa kallað á þannig að það er í sjálfu sér ekkert fyrir það að synja að háskólinn geti eftir sem áður þróað þessar námsgreinar jafnvel þó að sérstakur áskilnaður sé í lögunum um að þessum skólum sé falið að annast búnaðarfræðsluna með þeim ákvæðum sem kveðið er á um í gildandi lögum.

Við hv. þm. Birkir Jón Jónsson, fulltrúi Framsóknarflokksins, ræddum þessi mál dálítið í umræðunni áðan. Við vorum ekki sammála í þessum efnum. Hv. þingmaður fagnaði þessu meginefni frumvarpsins sem felur það í sér að fella niður lagalegan áskilnað um búnaðarfræðslu og setja það inn í þessa almennu löggjöf um háskólana. Ég er honum ósammála. Það kom mér reyndar dálítið á óvart þetta sjónarmið hv. þingmanns en ég er honum ósammála. Ég tel að það skipti máli fyrir landbúnaðinn að lagalegur áskilnaður sé um búnaðarfræðsluna af ýmsum ástæðum sem ég ætla aðeins að fara yfir betur á eftir.

Ég vil hins vegar segja eitt til að það fari ekki á milli mála og árétta það sem fram kom í orðaskiptum okkar hv. þingmanns áðan; ég tel að það sé ekkert að óttast í þeim efnum að núverandi stjórnendur og kennarar í landbúnaðarháskólum hafi ekki fullan skilning á mikilvægi búfræðinámsins. Málið snýst ekki um það. Þar höfum við að mínu mati séð mjög jákvæða hluti gerast á vettvangi þessara skóla þrátt fyrir að þeim hafi verið mjög þröngur stakkur skorinn fjárhagslega. Þessir skólar hafa sinnt hlutverki sínu svo til fyrirmyndar er og er engin spurning um að þekking þeirra sem útskrifast úr búfræðinámi í dag er mjög góð og örugglega meiri en var hér áður fyrr. Er ég þó ekki að varpa neinni rýrð á það sem gerðist í fortíðinni. Það er einfaldlega þannig að þróunin, framfarirnar, þekkingin á þessu sviði er orðin meiri og þess vegna eru möguleikar skóla orðnir meiri til að miðla þeirri þekkingu til nemendanna.

Úr því að ég er farinn að ræða um búfræðinámið vil ég segja það líka að það er mjög ánægjulegt að mjög góð aðsókn er bæði í almenna búfræðinámið og ekki síður í garðyrkjunámið. Garðyrkjunámið hefur stundum svolítið legið til hliðar eða verið í skugganum af annarri umræðu um búfræðinám og nám í þágu landbúnaðarins. Það er hins vegar vaxandi atvinnugrein eins og við vitum. Hún hefur verið að hasla sér völl á nýjum sviðum eins og við þekkjum. Þar er ævintýralega gaman að koma og sjá hvernig garðyrkjufólkið hefur náð miklum tökum á starfsemi sinni í því að þróa vörur sínar. Það hefur náð miklum árangri innan lands meðal neytenda þannig að ég tel að þar sé heilmikil framtíð sem við eigum ekki að setja í neina óvissu, t.d. með því að fella burtu lagalegan áskilnað um búfræðinám og búnaðarfræðsluna sem kveðið er á um í gildandi lögum.

Það skiptir líka miklu máli í þessu sambandi að menn hafi í huga að Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri er mjög sérstök stofnun. Annars vegar er það hefðbundin skólastofnun en það er auðvitað háskóli umfram allt og sem háskóli þarf hann að hafa og hefur nú þegar á að skipa mjög færu fólki á rannsóknarsviði. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur á margan hátt mikla sérstöðu. Þegar honum var komið á laggirnar var tekin um það ákvörðun sem ég held að hafi verið til mikillar farsældar, að setja inn í skólann sjálfa Rannsóknastofnun landbúnaðarins, RALA. Þegar skóli fær í tannfé gríðarlega öfluga rannsóknarstofnun sem verður hluti af skólanum sjá allir í hendi sér að rannsóknarhluti þess skóla verður til mikillar fyrirmyndar og nær mjög miklum árangri á alþjóðlegan mælikvarða. Það á bæði við um Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og um Háskólann á Hólum að þessir skólar hafa farið eins og aðrir háskólar í landinu í gegnum tiltekið mat sem er framkvæmt undir hatti menntamálaráðuneytisins með alþjóðlegum mælikvörðum. Báðir þessir skólar hafa komið firnavel út úr því mati. Þeir eru með öðrum orðum mjög góðar menntastofnanir, mjög góðir háskólar og geta í alþjóðlegum samanburði borið höfuðið hátt. Þess vegna segi ég að það skiptir svo miklu máli að við röskum ekki með nokkrum hætti grundvelli þeirrar starfsemi sem þarna fer fram m.a. með því að taka burtu það ákvæði sem lýtur að lögbindingu búnaðarfræðslunnar og síðan annað, sem er líka nauðsynlegt að við höfum í huga, að sú rannsóknarstarfsemi sem fram fer á sviði landbúnaðarins hefur á margan hátt sérstöðu.

Vitaskuld er rannsóknarstarfsemi af ýmsum toga. Rannsóknir taka mislangan tíma og í ýmsum tilvikum lýkur þeim í raun aldrei. Menn ná ákveðnum árangri. Tiltekin verkefni taka tiltekinn tíma en önnur eru þess eðlis að þeim lýkur í raun aldrei, þær rannsóknir halda áfram og eru í eðli sínu langtímaverkefni. Ég get í því sambandi sérstaklega talað um grasrannsóknir, áburðarrannsóknir og jarðvegsrannsóknir. Þess háttar rannsóknir eru eðlis málsins samkvæmt ekki rannsóknir sem taka þrjú ár eða fimm ár og eru kannski af þeim ástæðum ekki vel til þess fallnar að starfa á samkeppnismarkaði þó að tiltekin rannsóknarverkefni á því sviði geti vel fallið undir það.

Það á við um svo margt annað sem við höfum verið að sinna á Íslandi, það eru langtímaverkefni sem hafa mikla sérstöku en byggja á hinni nauðsynlegu sambúð rannsóknarverkefnanna og kennslunnar á þessum tilteknu sviðum. Þegar Landbúnaðarháskóli Íslands var stofnaður á Hvanneyri á sínum tíma og raunar eftir það, þegar ákvörðun var tekin um að setja þá stofnun undir menntamálaráðuneytið en hún hafði áður hafði verið undir landbúnaðarráðuneytinu, þá fylgdi það líka með að gerður var sérstakur samningur, rannsóknarsamningur á milli landbúnaðarráðuneytisins, síðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og núna loks atvinnuvegaráðuneytisins, við þessa skóla. Hann tryggði þeim tiltekna fjármuni til að geta stundað rannsóknir sem lutu beinlínis að búnaðarþættinum, sem er auðvitað hryggjarstykkið og grundvöllurinn að þessum skóla. Það skiptir mjög miklu máli og er mjög mikilvægt að mínu mati að það haldi áfram. Ég óttast það nokkuð að ef búið er að klippa á þá lagalegu sérstöðu sem núna er varðandi lögin um Landbúnaðarháskólann verði erfitt að færa fyrir því rök að gerðir skuli slíkir samningar við einn tiltekinn háskóla. Þá hlýtur að koma upp sú krafa frá ýmsum öðrum háskólum, sem gjarnan vildu komast í þessa fjármuni, að fá þessa peninga. Þar með klippum við á hið bráðnauðsynlega samstarf og samband landbúnaðarfræðslunnar og landbúnaðarins sem verið hefur báðum aðilum til mikillar blessunar að mínu mati.

Ég ætla að taka annað dæmi um verkefni sem einnig hefur verið unnið og er mjög áhugavert í þessu sambandi. Þar vísa ég til lýsingartilrauna sem átt hafa sér stað í garðyrkjunni, af því að ég er búinn að nefna hana nokkuð og tel ástæðu til að ræða hana alveg sérstaklega. Við vitum að eftir þær breytingar sem urðu með aðlögunarsamningunum sem gerðir voru á sínum tíma þegar ákveðið var að fella niður tollverndina og gera sérstaka samninga við garðyrkjuna þá opnuðust möguleikar og losnuðu úr læðingi margs konar kraftar og greinin fór að sækja á og sækja inn á nýjar veiðilendur. Ein forsendan fyrir því er sú að hér á landi og raunar annars staðar líka hafa farið fram miklar tilraunir með lýsingu sem leitt hafa til þess að núna er í flestum þessum garðyrkjustöðvum búið að setja upp mjög fullkominn búnað til lýsingar allt árið um kring. Það hefur haft þau áhrif að búunum hefur fækkað en þau hafa líka stækkað og framleiðslan í ýmsum greinum hefur aukist, en forsendan er þessi lýsing allt árið um kring. Væri hún ekki til staðar hefðum við ekki t.d. paprikurækt í þeim mæli sem er í dag, ekki tómatarækt og ekki agúrkur. Ég kom nýlega inn í glæsilegt garðyrkjubú í Borgarfirðinum, á Laugalandi, þar sem ég fylgdist með þessu. Þar sem við sáum ótrúlegan árangur sem byggðist allur á hinni miklu þekkingu og það eru þeir hlutir sem ég tel svo mikilvægt að við ræðum í samhengi þegar við ræðum um skipulag háskólastarfsins, opinberu háskólanna.

Ég hlýt að lokum að nefna alveg sérstaklega í því sambandi (Forseti hringir.) mikilvægi þess að við klippum ekki á þann hárfína en mikilvæga þráð sem ég tel að núgildandi lög um búnaðarfræðslu séu í því samhengi sem ég hef þegar rætt um.