141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[14:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á þetta atriði í fyrri ræðu minni, þ.e. að mér virtist — af samtölum mínum við fólk í háskólaráði landbúnaðarháskólanna, hvort sem það var á Hólum eða Hvanneyri, rektora og aðra stjórnendur skólanna, og auðvitað líka af upplifun minni í tengslum við fjárlagagerðina í haust — að lengra væri gengið í að skerða fé til þessara skóla en til annarra skóla. Maður hafði það á tilfinningunni, og ég veit að ýmsir innan kerfisins í þessum skólum höfðu það líka á tilfinningunni, að verið væri að svelta þá til einhvers. En það var hins vegar ekki ljóst til hvers. Var það til þess að þeir sameinuðust öðrum skólum? Var það til þess að leggja þá niður? Var það til þess að þeir umbyltu starfsemi sinni? Það var ekki ljóst. Þess vegna skorti augljóslega á stefnumörkun hjá hæstv. ríkisstjórn varðandi þessa skóla.

Mér finnst það frumvarp sem hér liggur fyrir ekki svara öllum spurningum sem eðlilega vakna við þessa endurskoðun, það svarar bara hluta þeirra. En frumvarpið og umsögn fjárlagaskrifstofunnar sannfærir okkur hins vegar um og staðfestir að það hefur verið vitlaust gefið. Skólarnir hafa fengið of lítið fé til að sinna öllum þeim þáttum sem þeir hefðu átt að gera. Það er viðurkennt að reiknilíkan framhaldsskólans hefur ekki verið nýtt og ekki verið hægt að nota á búnaðarfræðslustigið, búfræðsluna, eða aðrar þær námsbrautir sem tengjast framhaldsskólastiginu. Það hefur væntanlega þýtt að fjármunir sem beint var til háskólastigsins hafa verið nýttir þarna og einhver samlegðaráhrif orðið sem hér á að slíta í sundur og þá skortir fé á hina hliðina. Ef því er ekki svarað um leið hvað eigi að gera á því stigi tel ég þessa leið meingallaða og mun leggjast gegn þeim hluta þessa frumvarps sem snýr að því þó að ég sé að sama skapi mjög ánægður (Forseti hringir.) með lögfestingu samstarfsnets háskólanna.