144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:24]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er haft samráð og menn ræða saman og ég er sannfærð um að fyrir þeirri tillögu sem atvinnuveganefnd leggur fram er meiri hluti innan stjórnarflokkanna, en ég hef ekkert legið á þessari skoðun minni, hún hefur jafnframt legið fyrir. Við viðhöfum kannski öðruvísi og lýðræðislegri vinnubrögð en hv. þingmaður er vanur. Framkvæmdarvaldið stýrir þessu ekki, ég var nefnilega spurð að því hér hvort ég stjórnaði ekki því sem færi fram í nefndinni. Það geri ég ekki.