149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað á eftir að ræða um þetta. Það er alveg skýrt að þegar við fjöllum um afleiðingu innleiðingar stjórnskipulegs fyrirvara gengur hann á undan þeirri innleiðingarreglugerð sem síðan fylgir. Það sem í henni stendur verður beint upp úr þingsályktunartillögu sem við erum núna að fara að samþykkja. Og auðvitað er síðan hæstv. ráðherra bundinn af ályktun Alþingis. Hvaða traust berið þið eiginlega til Alþingis ef þið teljið að ráðherrann sé ekki bundinn af ályktun Alþingis sem hér er undir?

Það má vera ljóst, fyrst hv. þingmaður nefnir það, að auðvitað tekur innleiðingarreglugerðin ekki gildi fyrr en hún er komin, eftir að við afléttum stjórnskipulegum fyrirvara. Annað væri markleysa og er aldrei gert hér. Og af hverju stendur hún ekki í þingsályktunartillögunni? var líka spurt. Erum við nú farin að setja reglugerðir inn í þingsályktunartillögur? Ég veit ekki alveg hvert það mundi síðan leiða okkur.

Um það sem fræðimönnum sem og Miðflokksmönnum hefur orðið tíðrætt um hafa aðrir fræðimenn sagt: (Forseti hringir.) Þessir lagalegu fyrirvarar hafa skýrt og mikilvægt gildi fyrir það sem við erum að gera hér.