150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

stimpilgjald.

313. mál
[14:59]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég má til með að leiðrétta það að þetta sé eitthvert forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Það er öðru nær og er ekki svo. Þetta mál hefur verið mánuðum ef ekki árum saman í þinginu og hefur auðvitað verið umdeilt eins og hérna kemur fram.

Það er alveg ljóst að tækifæri felast í þessu. Einu atvinnutækin sem seld eru með stimpilgjaldi, notuð tæki, eru notuð fiskiskip. Íslenskar útgerðir hafa getað nýtt sér það að flagga þeim út í veiðar í erlendri landhelgi þar sem þær hafa getað aflað sér kvóta og það kemur í enda dagsins þjóðarbúi og okkur öllum og sjómönnum til góða vegna þess að þetta mun virka í báðar áttir. Erlendum skipum mun líka verða flaggað inn sem munu verða mönnuð íslenskum áhöfnum þannig að með tíð og tíma mun þetta auðvitað jafnast út.

Ég skil það að Grænlendingar hafi sín lög um það að undirmenn á skipum skuli vera grænlenskir. Það er auðvitað ákveðinn galli, en á sama tíma eru íslenskar útgerðir að ná sér í kvóta í erlendri landhelgi, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur upp á framtíðina. Við sjáum núna þegar loðnubrestur verður að mikil tækifæri eru í því ef útgerðir gætu flaggað út skipum sínum til að stunda veiðar á öðrum hafsvæðum. Það er gríðarlega kostnaðarsamt að flagga skipum inn og út. Venjulegt notað uppsjávarskip greiðir kannski 70–80 milljónir við að flagga því út og annað eins þegar það kemur til baka. Það er verið að gera þetta nánast algerlega vonlaust.

Það þætti mörgum Suðurnesjamanninum það skrýtið ef Icelandair ætlaði að flagga út flugvél í nokkra mánuði í verkefni erlendis og þá þyrfti að borga stimpilgjald af flugvélinni. Það dettur ekki nokkrum manni í hug. Þess vegna er það bara sanngirnismál að útgerðin sitji við sama borð og aðrir. Ég vorkenni útgerðinni almennt ekkert að borga skatta eða gjöld, hvort sem það eru veiðigjöld eða önnur gjöld, en mér finnst eðlilegt að útgerðin, eins og annar atvinnurekstur í landinu, sitji helst við sama borð og aðrir.