151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

störf þingsins.

[13:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að yfir 60% þjóðarinnar skuli treysta núverandi ríkisstjórn til góðra verka. Það er mikilvægt við svona aðstæður að traust sé ríkjandi gagnvart þeim stjórnvöldum sem vinna erfið verk á erfiðum tímum eins og þessi kórónuveirufaraldur hefur reynst þjóðinni og heimsbyggðinni. Forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir, nýtur líka mikils trausts og það er mjög gott. Það sýnir líka að landsmenn treysta Vinstri grænum til að leiða þjóðina í gegnum erfiða tíma, og það hefur tekist vel. Stjórnvöld hafa gripið til fjölda aðgerða og mætt fólki og fyrirtækjum í erfiðum aðstæðum. Það hefur aldrei verið lagt meira fé í samgöngur eða nýsköpun, heilbrigðismál og aðra þætti meðfram því að vera að glíma við þessar erfiðu aðstæður. Það er oft mikill bölmóður í þessum ræðustól og það er með ólíkindum hvernig menn geta velt sér upp úr ólíklegustu hlutum til að reyna að draga andann í þjóðinni niður. En það tekst greinilega ekki og fólk er ánægt með hvernig til hefur tekist. Það er góð vísbending um að Vinstri græn, okkar flokkur, verða eftirsótt til stjórnarsamstarfs í næstu kosningum og trúlega vilja allir þá Lilju kveðið hafa í haust að reyna að mynda stjórn með Vinstri grænum. Við höldum því til haga að við treystum okkur til að leiða áfram í ríkisstjórn og það eru málefni sem ráða því með hvaða flokkum við vinnum. Traust er lykilatriði í stjórnmálum og verkefnunum fram undan verður aldrei lokið. Það eru alltaf einhver verkefni fram undan og við þurfum alltaf að gera betur í öllum málaflokkum, en það er gott að þjóðin treystir Vinstri grænum til að vera áfram í forystu og það hefur sýnt sig undanfarið kjörtímabil að það hefur gengið mjög vel.