Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

Traust og trúverðugleiki íslenska ríkisins á fjármálamörkuðum.

[15:46]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að halda aðeins aftur af sér í yfirlýsingum (Gripið fram í.) í þessu máli. Auðvitað er með ólíkindum að hlusta á hæstv. ráðherra: „Ekkert sem sagt hefur verið í þessu máli felur það í sér að ríkið ætli ekki að standa við sínar skuldbindingar.“ Þetta sagði hæstv. ráðherra hér áðan. En ef svo væri, virðulegur forseti, ef það stæði til að fylgja algerlega þeim lögum og leikreglum sem eru í gildi, þá þyrfti auðvitað ráðherra ekkert að standa hérna í einhverjum slagsmálum við lífeyrissjóðina í landinu. Þá þyrfti ráðherra ekki að leggja fram frumvarp um að slíta ÍL-sjóði til að demba byrðunum yfir á lífeyrissjóðina. Höfum það alveg á hreinu að það er ríkisstofnun sem gaf út þessi skuldabréf með mjög skýrum skilmálum. Af því að hæstv. ráðherra talaði um skýra skilmála hér áðan þá veltir maður fyrir sér hvort hann hafi lesið og velt fyrir sér þessum skýru skilmálum. (Gripið fram í.) — Nei, nei. Það er tilgreindur ákveðinn lánstími, þetta eru óuppgreiðanleg bréf. Þetta eru bara mjög skýrir skilmálar af ríkistryggðum bréfum og á þessum grundvelli hafa bréfin verið verðmetin á markaði. Þetta eru kröfur sem njóta eignarréttarverndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, eins og Róbert Spanó bendir á sem segist ekki þekkja nein dæmi um viðlíka aðgerðir og hæstv. fjármálaráðherra er að hóta í sögu dómaframkvæmdar MDE. Auðvitað er það engin tilviljun að síðast í gær, hæstv. ráðherra, síðast í gær taldi sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Forseti hringir.) á Íslandi sig knúna til að árétta það sérstaklega og vara sérstaklega við því að þetta brölt (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra kunni … (Gripið fram í.) — Nei. Að það kunni að hafa áhrif á trúverðugleika (Forseti hringir.) íslenska ríkisins sem skuldabréfaútgefanda. (Fjrmh.: Þetta er rugl.) Nei, lestu bara hæstv. ráðherra, (Gripið fram í.) lestu það sem kemur frá sendinefnd AGS (Forseti hringir.) sem telur ástæðu til að vara sérstaklega við þessu og biðla til ráðherra (Forseti hringir.) að fara varlega í þessum málum.

(Forseti (BÁ): Ekki tveggja manna tal og ekki nema einn sem hefur orðið í einu. Tíminn er líka takmarkaður.)

Það var annars gaman að heyra ráðherra rifja upp afstöðu sína í Icesave-málinu undir lokin, að það væri mikilvægt að semja (Forseti hringir.) og ná sameiginlegri niðurstöðu frekar en að vera með óðagot og yfirlýsingar.