Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

Traust og trúverðugleiki íslenska ríkisins á fjármálamörkuðum.

[15:58]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta er býsna flókið mál. Ég hafði nú eiginlega hugsað mér að koma hérna upp og ræða mikilvægi þess að uppgjörið, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á hér, uppgjörið á Íbúðalánasjóði, verði ekki meira íþyngjandi fyrir almenning en þörf krefur. Þar þarf auðvitað að taka tillit til allra sjónarmiða. Það þarf að taka tillit til áhrifanna á langtímafjármögnunarkostnað og fjármögnunartækifæri okkar. Það þarf að taka tillit til mögulegrar bótaskyldu. Og það þarf að taka tillit til hagsmuna þess stóra hluta almennings sem á töluvert mikið undir stöðu lífeyrissjóðanna okkar. En ég missti eiginlega fókusinn þegar hæstv. ráðherra fór að kalla eftir vinum ríkissjóðs, vegna þess að það verður auðvitað að segjast eins og er að fáir hafa reynst ríkissjóði verri vinir síðastliðin ár en akkúrat hæstv. ráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar litið er til stöðu ríkissjóðs og þeirrar gegndarlausu útgjaldaaukningar sem þar hefur verið. Þetta sló mig nú eiginlega bara kalda, herra forseti, að það skuli vera rökin.

Ég verð síðan líka að segja að jafn oft og kallað hefur verið hér eftir því að hagur almennings verði látinn ráða en ekki sérhagsmunir þegar kemur að ákvarðanatöku stjórnvalda er eitthvað líka skrýtið við það að sérhagsmunirnir sem hæstv. ráðherra finnur til að standa gegn skuli vera íslenskir lífeyrissjóðir. Það er einfaldlega allt á hvolfi í þessu máli.

Að því sögðu þá þarf að leysa þetta. Ljósglætan í máli hæstv. ráðherra er áherslan á að ná samningum um þetta mál, vegna þess að hvaðan sem við komum og hvaða réttmætu áhyggjur við höfum af stöðu mála (Forseti hringir.) þá verðum við að muna að hagsmunirnir sem eru undir eru hagsmunir almennings, (Forseti hringir.) sem eru lífeyrisþegar þessa lands í nútíð og framtíð.