136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

kostnaður við stjórnlagaþing.

[13:41]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða neinum tíma í að svara því sem fram kom í síðustu ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar. En ég verð þó að lýsa því yfir að mér finnst mjög miður að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, skuli kjósa að svara ekki þeirri spurningu sem til hans var beint. Spurningunni um það hvort afstaða Samfylkingarinnar og þingflokks Samfylkingarinnar hefði verið önnur ef fyrir hefði legið hver kostnaðurinn við stjórnlagaþingið verður.

Framsóknarmenn fóru fram með málið á þeim grundvelli að kostnaður við stjórnlagaþing yrði 200 millj. til 300 millj. sem eru auðvitað gríðarlegar fjárhæðir. En nú hefur fjármálaráðuneytið lagt mat á það að kostnaður við stjórnlagaþing verði 1.700 millj. til 2.100 millj. og ef ég þekki fjármálaráðuneytið rétt ofmetur það örugglega ekki þann kostnað sem til fellur vegna stjórnlagaþingsins. (Gripið fram í.)

Ég held að talsmenn stjórnlagaþings hljóti nú að endurskoða hug sinn og a.m.k. velta því fyrir sér hvort verjanlegt sé að eyða svona miklum fjármunum í þetta ævintýri. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort ekki sé eitthvað bogið við það að vilja eyða 1.700 millj. til 2.100 millj. af fjármunum skattgreiðenda í að koma á stjórnlagaþingi miðað við ástandið eins og það er í þjóðfélaginu. Ríkissjóður er rekinn með 150 milljarða kr. halla og við slíkar aðstæður hljóta menn að þurfa að forgangsraða fjármunum eftir mikilvægi mála. Ég hefði talið að ríkisstjórnin ætti frekar að einbeita sér að því að bjarga heimilunum í landinu og koma atvinnulífinu á eitthvert ról. Menn verða að átta sig á því að góðærið er búið. Það eru ekki til endalausir fjármunir (Forseti hringir.) í ríkissjóði. Þessu þurfa menn að fara (Forseti hringir.) að gera sér grein fyrir og einbeita (Forseti hringir.) sér að því sem máli skiptir.