136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

þingmál um veiðar á hrefnu og langreyði.

[14:16]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er dálítið einkennilegt að mál sem borið er fram af ríflegum meiri hluta þingmanna skuli ekki vera sett á dagskrá og tekið til umræðu. Ég held þó að hæstv. forseti hafi sér það til málsbóta að ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra var sú að staðfesta fyrri ákvörðun. Það má því segja að hann hafi gefið í skyn að það sem var tilefni til flutnings málsins mundi breyta ákvörðuninni. En það breytir ekki því að betra er að afgreiða málið og gera það að samþykkt þingsins þannig að það bindi hendur ráðherrans betur en núverandi fyrirkomulag.

Mér finnst hins vegar svolítið gaman að fylgjast með hv. þm. Merði Árnasyni sem er í þessu fundaskaki augljóslega bara til að draga athyglina frá þeirri staðreynd, sem er alveg augljós, að hér er ekki hægt að halda uppi þingstörfum með málum frá ríkisstjórninni. Það er ekkert á dagskrá, ríkisstjórnin hefur engin mál til að leggja fyrir þingið. (Forseti hringir.) Hér er verið að ræða þingmannamál sem (Forseti hringir.) ganga aðeins til nefnda og ekki fyrirsjáanlegt að fái síðan frekari afgreiðslu.