138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, t.d. að grennslast fyrir um það hvers vegna skúffufyrirtækinu Magma er hleypt undir jarðskorpuna á Suðurnesjum. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Það má taka ýmis dæmi um afdrifaríkar ákvarðanir sem verið er að taka og snúa að auðlindum þjóðarinnar. Reyndar held ég að ef við ætlum að rekja okkur aftur í tímann og spyrja: Hvar voru fyrstu mistökin? — Ég horfi til framsals í kvótakerfinu. Ég horfi vissulega til einkavæðingarinnar á bönkunum og það er alveg rétt sem fram kemur hjá hæstv. utanríkisráðherra að við þurfum að taka til sérstakrar skoðunar það sem þar gerðist. Þar tel ég að alvarlegt misferli hafi átt sér stað og ekki séu öll kurl komin til grafar. Ég tek undir með honum hvað þetta snertir en ég tel að þetta sé röð ákvarðana og afstaða almennt í stjórnmálunum sem er að breytast.

Ég hef stundum vísað til þess að þegar hægri bylgjan reis í byrjun 9. áratugarins í kjölfar Reagans/Thatcher-áranna urðu hægri flokkar ekki stærri heldur urðu allir flokkar hægri sinnaðir og meira markaðsþenkjandi. Það er nefnilega þannig í stjórnmálum eins og í tískunni að það eru támjóir skórnir og þykkir sólarnir. Það var ekkert annað á boðstólum í hinum pólitískum hillum en frjálshyggja og henni var bara tekið þegjandi og gagnrýnislaust. Nú er pendúllinn að koma til baka yfir í félagshyggjustjórnmálin, yfir í að hyggja að samfélaginu og hagsmunum þess en ekki fjármagnsins. Ég var að blaða í gömlum ræðum frá þessum tíma um einkavæðingu bankanna og þá sagði ég í þessum sal við þáverandi viðskiptaráðherra, Finn Ingólfsson: „Þú hlustar bara á bankana.“ (Forseti hringir.) Þá kallaði hann fram í, það er í sviga: „Ég hlusta á þá, ég hlusta á þjóðarsálina.“ (Forseti hringir.) Það er þjóðarsálin sem hefur tekið breytingum og nú skulum við hlusta svolítið á hana, hlusta á rödd (Forseti hringir.) þjóðarinnar.