138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eitt af því sem við getum lært af þessari skýrslu er t.d. nauðsyn þess að innræta þeim sem skrifa skýrslur jafnleiftrandi stílbrögð og er að finna í skýrslunni.

Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður segir um nauðsyn þess að fá meiri tíma fyrir umræðuna. Ég var sammála hv. þingmönnum Hreyfingarinnar sem vildu fresta þessari umræðu. Ég reifaði sjálfur þau viðhorf vegna þess að ég taldi að það væri rétt að fara í þessa umræðu með þeim hætti að forustumenn flokkanna gæfu fyrstu viðbrögð og síðan gæfist mönnum tóm til þess að melta og meta innihald skýrslunnar. Ég er algjörlega sammála því og ég tel að það sé nauðsynlegt líka að framhaldsumræða verði hér þegar forsætisnefnd metur rétt.

Ég er þeirrar skoðunar að sú aðferð sem notuð var við einkavæðingu bankanna hafi ýtt mönnum inn á þessa þróun og hún sé stærsta orsökin. Ástæðan fyrir því er sú að það var ekki einungis farið inn á þá braut að láta stóra hluti í hendur sömu eigenda heldur var farið inn á þá braut, að mínu viti, að láta pólitíska vildarmenn fá þessa hluti. Ég held að það hafi verið eitt stærsta óheillasporið. Þess vegna er ég ekki algjörlega sammála hv. þingmanni um að það sé hægt að halda því fram — ég er ekki að segja að hann hafi gert það, en það mátti kannski lesa það úr orðum hans — að núna sé búið í reynd að einkavæða tvo bankanna bak kreppu. Og það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram, við vitum ekki algjörlega hverjir eru eigendurnir, en eitt vitum við þó alveg klárlega að þeir hlutar, sem eru aðallega í eigu útlendinga að ég held, voru ekki afhentir pólitískum vildarmönnum. Ég er með engu móti að sneiða að núverandi forustu eða núverandi þingflokki Framsóknarflokksins, ég er bara að segja að það að þetta var gert, að þetta var afhent með pólitísku boðvaldi pólitískum vildarhópum sem síðan voru inntengdir í forustu ráðandi flokka, (Forseti hringir.) ég held að það hafi verið stóra meinið í þessu, ég held það. (Gripið fram í: Hver var forsætisráðherra?)