138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að fara yfir sýn sína á þróun þess hvernig þetta gerðist í aðdraganda bankahrunsins. Ráðherra var tíðrætt um í byrjun ræðunnar að hér ætti að ástunda vönduð og fagleg vinnubrögð og ég tek undir það með honum.

Sá ráðherra sem talaði hér stóð í lappirnar og fylgdi sannfæringu sinni þegar Evrópusambandsumsóknin var samþykkt, þvert á flokkslínur, og er ég honum þakklát fyrir það. En hæstv. ráðherra hefur það nú yfir höfði sér að verða jafnvel rekinn úr ríkisstjórn vegna þess að nú á að fækka ráðuneytum og hefur samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn lagt mikið kapp á að losna við þennan sjálfstæða ráðherra úr ríkisstjórninni, það dylst engum. Vinstri grænn ráðherra var rekinn úr ríkisstjórninni fyrir það að fylgja sannfæringu sinni í Icesave-málinu. Við framsóknarmenn erum líka ævarandi stoltir af þeim ráðherra, því að með því að Vinstri grænir létu ekki reka sig eins og ketti í þessum tveimur atkvæðagreiðslum sýndu þeir að þeir þora að standa á móti straumnum og ganga ekki í takt eins og Samfylkingin í Garðabæ vill að Vinstri grænir gangi.

Mér sýnist þetta ríkisstjórnarsamstarf vera komið nokkuð að fótum fram og verður nú kannski ekki langlíft eftir þetta. Mig langar því að spyrja ráðherrann í framhaldi af þessu hvort hann taki ekki undir þær tillögur sem hafa komið hér fram um að menn eigi að fylgja sannfæringu sinni í einu og öllu á Alþingi og ekki fylgja flokksaga eða flokksræði. Þá fyrst getur Alþingi farið að starfa með eðlilegum hætti og verið það löggjafarvald sem það á að vera til hagsbóta fyrir þjóðina alla. Er ekki ráðherrann sammála mér um þetta?