138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað ber ég miklar væntingar til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann vinni störf sín áfram vel til hagsbóta fyrir sjávarútveg og landbúnað í landinu, ekki veitir af þar sem nú liggur fyrir umsókn að Evrópusambandinu.

Það var gaman að ráðherrann skyldi minnast á Viðeyjarstjórnina svokölluðu því að sú ríkisstjórn lagði grunninn að því að hér var tekinn upp löggiltur samningur inn á Evrópska efnahagssvæðið sem lagði grunn að því gerræðislega og taumlausa fjármálakerfi sem þróaðist hér og í Evrópu, sem leiddi að lokum til falls íslensku bankanna og þess falls og hruns sem við stöndum frammi fyrir.

Því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Er þetta það sem við Íslendingar þurfum nú, að fara á hnjánum til Evrópusambandsins og biðja um að vera teknir inn í sambandið? Er rétt að gera þetta á þessum tímapunkti? Hver er skoðun ráðherrans á því? Á að draga Evrópusambandsumsóknina til baka eða á að halda henni áfram?