140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég held reyndar að enginn trúi því að hér sé ekki um aðlögun að ræða nema kannski hæstv. utanríkisráðherra og örfáir hv. þingmenn sem hafa leikið þennan blekkingaleik um aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Ég held að það séu reyndar mjög fáir eftir í þingflokki Vinstri grænna sem halda að einhver trúi því.

Hv. þingmaður kom líka inn á það í svari sínu að það væri litið á Alþingi sem stimpilpúða fyrir framkvæmdarvaldið og sagði að þegar væri búið að taka við styrkjum og það væri bara formsatriði að Alþingi hlýddi framkvæmdarvaldinu með því að samþykkja þetta frumvarp.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað honum finnst um 8. gr. frumvarpsins, sem er í raun bara reglugerðarheimild. Í henni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að setja reglugerð er kveður nánar á um framkvæmd laga þessara.“

Það er æ algengara að sjá þetta, það er bara settur einhver texti og svo enda öll lagafrumvörp á því að ráðherra má gera nákvæmlega það sem honum dettur í hug með því að setja reglugerð. Engar útlínur eru gefnar eða gerðar neinar tilraunir til að útskýra í hverju hún á að felast, við hverju þurfi að bregðast með reglugerð. Ákvæðið er bara algjörlega opið.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir með mér að þetta sé einn af þeim ósiðum sem verður að fara að leggja af, að öll lagafrumvörp endi á því að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð um nánast hvað sem er. Það eru engar takmarkanir á því og ekkert fjallað um það í nefndarálitinu hvað gæti hugsanlega komið til greina, ákvæðið er bara algjörlega opið.